Yfir 1100 kosið utankjörfundar

Mikil ásókn er áfram í kosningu utankjörfundar hjá sýslumanninum á Austurlandi fyrir Alþingiskosningarnar á morgun. Vond veðurspá á þar stærstan hlut að máli.

Í gær kusu 346 einstaklingar utankjörfundar hjá embættinu og á fyrsta klukkutímanum 35 til viðbótar. Klukkan tíu í morgun voru atkvæðin því orðin 1138 talsins.

Svavar Pálsson, sýslumaður, segir engan vafa leika á að veðurspáin hafi ýtt við fólki. Erfitt sé að segja hvað gerist í dag, fimmtudagurinn sé vanalega stærsti dagurinn í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Yfirleitt er meira að gera eftir því sem líður á daginn. Þannig komu flestir í gær í hádeginu og síðan seinni partinn.

Sveitarfélög á Austurlandi hafa hvatt íbúa til að kjósa utankjörfundar í ljósi veðurspárinnar. Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun fyrir Austfirði sem stendur nær allan þann tíma sem kjörfundur stendur.

Hjá sýslumanninum hefur meðal annars verið brugðist við með að opna sérstakan kjörstað frá 10-11:30 í Breiðabliki í Neskaupstað auk þess sem kjörstjóri var skipaður í Mjóafirði. Þá var opnunartími lengdur á skrifstofum Múlaþings á Borgarfirði og Djúpavogi, þar er hægt að kjósa til 14:00 í dag.

Sýsluskrifstofurnar á Egilsstöðum og Eskifirði eru opnar til 17:00 í dag en á Vopnafirði og Seyðisfirði til 14:00.

Mynd: Heiður Ósk Helgadóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.