Yfir 1100 kosið utankjörfundar

Mikil ásókn er áfram í kosningu utankjörfundar hjá sýslumanninum á Austurlandi fyrir Alþingiskosningarnar á morgun. Vond veðurspá á þar stærstan hlut að máli.

Í gær kusu 346 einstaklingar utankjörfundar hjá embættinu og á fyrsta klukkutímanum 35 til viðbótar. Klukkan tíu í morgun voru atkvæðin því orðin 1138 talsins.

Svavar Pálsson, sýslumaður, segir engan vafa leika á að veðurspáin hafi ýtt við fólki. Erfitt sé að segja hvað gerist í dag, fimmtudagurinn sé vanalega stærsti dagurinn í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Yfirleitt er meira að gera eftir því sem líður á daginn. Þannig komu flestir í gær í hádeginu og síðan seinni partinn.

Sveitarfélög á Austurlandi hafa hvatt íbúa til að kjósa utankjörfundar í ljósi veðurspárinnar. Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun fyrir Austfirði sem stendur nær allan þann tíma sem kjörfundur stendur.

Hjá sýslumanninum hefur meðal annars verið brugðist við með að opna sérstakan kjörstað frá 10-11:30 í Breiðabliki í Neskaupstað auk þess sem kjörstjóri var skipaður í Mjóafirði. Þá var opnunartími lengdur á skrifstofum Múlaþings á Borgarfirði og Djúpavogi, þar er hægt að kjósa til 14:00 í dag.

Sýsluskrifstofurnar á Egilsstöðum og Eskifirði eru opnar til 17:00 í dag en á Vopnafirði og Seyðisfirði til 14:00.

Mynd: Heiður Ósk Helgadóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar