Yfir 20 stiga hiti á Borgarfirði í nótt
Eftir kalt sumar njóta Austfirðingar nú síðbúinnar hausthitabylgju og hefur hitastigið víða um fjórðunginn mælst hátt í 20 stig síðasta sólarhringinn.Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu undanfarinn sólarhring voru 21,2°C á Borgarfirði eystra um klukkan eitt í nótt. Samkvæmt tölum frá Veðurstofu Íslands var hitinn þar um og yfir 20 gráður á milli klukkan níu í gærkvöldi þar til á öðrum tímanum í nótt.
Í Neskaupstað fór hitinn í 18,6 gráður og 18,9 á Seyðisfirði. Þar var hitinn kominn í 17,7 gráður fyrir klukkan átta í morgun.
Veðurstofan spáir suðvestlægri átt í dag og áfram suðlægum áttum fram yfir helgi með hita allt að 20 stigum um austan og norðanvert landið.