Skip to main content

Yfir 60 metra hviður í Hamarsfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. nóv 2012 22:11Uppfært 08. jan 2016 19:23

snjor_egs_13052012_tot4_web.jpg
Vonskuveður hefur verið á Austurlandi í allan dag og ekki útlit fyrir að það lagist í bráð. Starfsmenn á álverssvæðinu áttu erfitt með að komast til vinnu og bálhvasst er í Hamarsfirði.

Austfirskir fjallvegir hafa verið merktir ófærir í kortum Vegagerðarinnar frá því eldsnemma í morgun. Fagridalur var opinn fyrst í morgun en lokaðist skjótt. Starfsmenn á álverssvæðinu sem fara áttu frá Héraði á Reyðarfjörð komust því sumir ekkert til vinnu í dag á meðan þeir sem luku vakt sinni í morgun komust ekki heim. 

Bálhvasst hefur verið í Hamarsfirði frá kvöldmat. Vindhraði tæpir 40 metrar á sekúndu að meðaltali og yfir 60 metrar í verstu hviðunum. Þá er orðið illfært víða innanbæjar, til dæmis á Egilsstöðum.
 
Ekkert var flogið til Egilsstaða í dag og hæpið virðist að nokkuð verði flogið fyrr en á sunnudag. 
 
Spáð er norðan 20-25 metrum á sekúndu á Austurlandi fram yfir miðjan dag á laugardag og talsverði snjókomu.

Foreldrum nemenda í Hallormsstaðarskóla hefur verið bent á fylgjast með fréttum klukkan hálfa átta í fyrramálið en útlit er fyrir að þar verði skólahald fellt niður vegna veðurs.