Yfir sextán stiga hiti á Seyðisfirði í nótt
Hitastigið á Seyðisfirði fór yfir 16 gráður í nótt. Víðar á Austurlandi hafa verið óvenju mikil hlýindi miðað við árstíma, þótt hitamet hafi ekki fallið.Hitamælir Veðurstofunnar á Seyðisfirði mældist 16,5°C um klukkan fjögur um nótt. Þar var nokkuð hlýtt, um og yfir 10 stig í gær, kólnaði í gærkvöldi en hlýnaði aftur skarpt um miðnættið. Þar hafa hlýindin haldist frá því um klukkan sex í morgun.
Hæsti hiti á hálendingu mældist klukkan sex í morgun á Vatnsskarði eystra. Víða hefur verið hlýtt eystra í dag, miðað við árstíma.
Á Borgarfirði mældist 13 stiga hiti í hádeginu en þar hafa verið meiri sveiflur í hitastiginu en víða annars staðar. Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði var 14 stiga hiti klukkan þrjú í nótt og aftur klukkan sex í morgun. Víða hefur verið um og yfir 10 stiga hiti í dag.
Hitinn kemur úr hlýjum loftmassa sem liggur yfir landinu og hefur sums staðar annars staðar valdið asahláku. Á Austurlandi hefur snjór og klaki bráðnað nokkuð hratt en ekki með sömu afleiðingum og annars staðar á landinu þar sem ár hafa flætt yfir bakka sína og vegir skemmst.
Hvass vindur úr suðvestri hefur sums staðar ýtt hitanum niður á láglendi. Útlit er þó fyrir að hitamet febrúarmánaðar, 19,1°C sem mældist á Eyjabökkum árið 2017, standi áfram óhaggað.
Heldur kólnar í kvöld og áfram á morgun, þótt hlýna kunni um tíma. Á laugardag tekur aftur við frost.