Yfirspenntur spennir orsakaði rafmagnsleysi suður frá Breiðdal
Keðjuverkandi truflun í kerfi Landsnets varð til þess að rafmagnslaust varð á svæðinu frá Breiðdal suður í Skaftafell í um fjóra tíma í gærmorgunn.Samkvæmt upplýsingum frá Rarik Austurlandi varð truflunin hjá Landsneti þess valdandi að spennir að Ormsstöðum í Breiðdal trekktist svo mikið að ekki var hægt að slá honum inn með fjarstýringu.
Því varð að senda viðgerðarmenn á staðinn til að slá honum inn. Fleiri spenna þurfi að handtrekkja niður eftir truflunina.
Samkvæmt upplýsingum frá Rarik var truflunin hjá Landsneti rakin til rafmagnsleysis á Hólum í Hjaltadal. Það rafmagnsleysi stafaði af útleysingu á Fljótsdalslínu 2, gömlu byggðalínunni til suðurs frá Fljótsdal, sem einnig leysti út í óveðrinu í síðustu viku. Truflunin nú hafði einnig áhrif á Blöndusvæðinu.
Varað hefur verið við mikilli úrkomu og ísingarveðri um helgina. Vonast er til að það hafi ekki teljandi áhrif á þær línur sem Rarik sér um eystra. Ekki eru áhyggjur af veðrinu á láglendi og varafl er til staðar á línum Rarik, svo sem til Borgarfjarðar og Mjóafjarðar.
Þá er einnig vonast til að mikið hvassviðri sem fylgir strax í kjölfar úrkomunnar verði til þess að ísing safnist síður fyrir á línum Rarik.