„Verst að geta ekki verið á öllum stöðunum í einu": Guðrún Lilja í yfirheyrslu
Lista- og menningarhátíðin Ormsteiti hefst í dag og því þótti tilvalið að taka Guðrúnu Lilju Magnúsdóttur í yfirheyrslu, en hún er skipuleggjandi hátíðarinnar.Er þetta annað árið sem Guðrún Lilja stýrir Ormsteiti. „Ormsteiti er mjög fjölbreytileg bæjar-, lista- og menningarhátíð á Fljótsdalshéraði sem teygir viðburði sína frá Möðrudal og lengst inn í Fljótsdal.
Viðburðirnir eru fyrir allra aldurshópa og að þessu sinnu eru margir þeirra tengdir hreyfingu og náttúru, ásamt áherslu á aðaleinkenni svæðisins, sem eru án efa hreindýr og Lagafljótsormurinn frægi."
Guðrún Lilja segir undirbúninginn hafa gengið mjög vel, enda með toppmanneskjur sér við hlið.
„Persónulega finnst mér dagskráin orðin vel þétt og rosalega fjölbreytt og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi – mér þykir verst að geta ekki verið á öllum stöðunum í einu.
Ég held að hátíðin verði enn skemmtilegri en í fyrra. Fastir viðburðir og skemmtannir verða auðvitað á sínum stað, svo sem karnivalskrúðgangan, hverfagrillin og hverfaleikarnir.
Nýr viðburður verður haldin í Valaskjálf föstudagskvöldið 21 ágúst, en það er Héraðsvakan. Er um að ræða létta og skemmtilega dagskrá með tónlistaratriðum og munu Stefán Bogi og Þorsteinn Bergsson stjórna hagyrðingakvöldi og Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmtir.
Ekki má gleyma miðbæjargleði Ormsteitis laugardeginum 22 ágúst, sem að þessu sinni verður haldin við Sláturhúsið, en þar verður fjölmargt um að vera fyrir allan aldur.
Þá verður hreindýraveislan haldin í Kornskálanum, þar sem Kolbrún Hólm „gourme kokkur" mun endurtaka leikinn síðan í fyrra og matreiða hreindýr af sinni alkunnu snilld – veistustjórar verða þeir Magni Ásgeirsson söngvari og Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari. Við endum svo með rosalegu Nostalgíu balli í Valaskjálf þar sem hljómsveitin Á móti sól mun trylla lýðinn.
Hljómsveitin Ylja mun svo ná stuðboltunum aftur niður á jörðina eftir svakalega Ormsteitisviku á Skriðuklaustri á Fljótsdalsdeginum 23 ágúst.
Nánari upplýsingar og dagskrá Ormsteitis má sjá hér.
Fullt nafn: Guðrún Lilja Magnúsdóttir.
Aldur: 35 ára.
Starf: Ég starfa hjá Truenorth kvikmyndagerðarfyrirtæki, í auglýsingadeild við kvikmyndagerð.
Maki: Jódís Skúladóttir.
Börn: Alex Skúli, Magnús Bjartur og Eldey Arna.
Fyrsta æskuminningin? Ég að teyma hross út í móa.
Hvað hræðistu? Að eitthvað hræðinlegt komi fyrir börnin mín.
Mesta undur veraldar? Barnsfæðing.
Besta bók sem þú hefur lesið? Les nánast eingöngu handrit af óútkomnu efni, horfi þeim mun meira á sjónvarpsþætti og bíómyndir, enda mitt aðaláhugamál.
Settir þú þér áramótaheit? Já að hreyfa mig meira.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Helst fólk sem stendur sig almennt vel í lífinu og er hamingjusamt.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Laugardagur, af því að það er ekki til betri tilfinning en að vakna á laugardagsmorgni og vita að maður á allan daginn frí og líka á morgun.
Undarlegasti matur sem þú hefur borðað? Afríkanskur réttur sem ég borðaði á veitingastað í London.
Besta tækniuppfinning frá upphafi? Einkatölvan og gsm einkasíminn – Appel að sjálfsögðu.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Júdas og spyrja hann – Af hverju?
Efstu þrjú atriðin á þínum „bucket lista"? Alvöru heimsreisa, klára fimm háskólagráður og að vera aðalframleiðandi af stórti íslenskri spennumynd eða sjónvarpsþáttaröð.
Hver er þinn helsti kostur? Á gott með að halda utanum marga hluti í einu og vinn vel undir pressu.
Hver er þinn helsti ókostur? Frekar smámunasöm með suma hluti, þarf stundum að „laga" eitthvað sem aðrir gera.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Ganga frá þvotti – þar að útskýra það frekar?
Leyndur hæfileiki? Ég elska að elda, en það tekur þá allan daginn, svokallað „slowfood".
Draumastaður í heiminum? Ítalía eins og hún leggur sig.
Trúir þú á Lagarfljótsorminn? Já klárlega.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Taka þátt í Ormsteiti af fullum krafti.