Helgin; Ævar vísindamaður veitir innsýn í töfraheim vísindanna
Mikið verður um dýrðir í Verkmenntaskóla Austurlands á morgun, en bæði verður Tæknidagur fjölskyldunnar haldin þar í fjóra skipti, en leið fagnar skólinn þrjátíu ára afmæli sínu og býður upp á veitingar af því tilefni.
Tæknidagurinn er haldinn af Austurbrú og Verkmenntaskóla Austurlands með það að markmiði að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í okkar nærumhverfi og varpa ljósi á þau fjölbreyttu störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu og miðast dagskráin við alla aldurshópa.
Ýmislegt verður í boði að þessu sinni, til dæmis verður reynt að ganga á vatni í fyrsta sinn í sögu Austurlandsfjórðungs.
Um leið er sýnt hvað tækni og vísindi geta vera skemmtileg og „venjulegt“ fólk mætir á Tæknidaginn og framkvæmir skemmtilegar vísindatilraunir. Á Tæknideginum ár verður meðal annars gerð tilraun til að ganga á vatni og leyndardómurinn um þann gjörning ef til vill afhjúpaður.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2016 verður með svipuðu sniði og áður. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi sýnir allskyns tæknilausnir, gestir fá að kynnast þyrluflugi í gegnum sýndarveruleikagleraugu, rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, eldsmíði upp á gamla mátann, landmótun í sandkassa, hrálýsi úr loðnu og fleira og fleira og fleira. Þá verður Ævar vísindamaður á staðnum og sýnir börnum inn í töfraheim vísindanna.
Tæknidagurinn verður milli klukkan 12:00 og 16:00 í húsnæði Verkmenntaskóla Austurlands. Áætlað er að fjöldi gesta í fyrra hafi verið um sjö hundruð manns en fjöldinn hefur farið stigvaxandi frá byrjun. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Fjölmargt annað skemmtilegt er í boði fjórðungnum um helgina, til dæmis;
Uppistand í Félagslundi
Hið íslenska grínistafélag verður með opið uppistandskvöld í Félagslundi á Reyðarfirði í kvöld í samstarfi við Sóma, starfsmannafélag Fjarðaáls. Grínistar kvöldsins eru þau Hugleikur Dagsson, Þórhallur Þórhallsson og Bylgja Babýlons. Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Fullkomið brúðkaup
Leikfélag Norðfjarðar frumsýnir leikritið Fullkomið brúðkaup í Egilsbúð á laugardagskvöldið klukkan 20:00. Um er að ræða farsa eins og þeir gerast bestir, en leikritið er fullt af ást, hatri, misskilning og hurðaskellum. Nánar má lesa um sýninguna hér.
Tónleikar með Eyþóri Inga
Tónlistamaðurinn Eyþór Ingi verður með tvenna tónleika á Austurlandi um helgina, annars vegar í Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld og á Vopnafirði á laugardagskvöld. Eyþór Ingi lofar „æðislegri kvöldstund“ en viðtal við hann má lesa hér.
KK í Valaskjálf
Tónlistarmaðurinn KK stígur á svið í Valaskjálf á laugardagskvöldið þar sem hann slær á sína alkunnu strengi og fer með áhorfendur í ógleymanlegt ferðalag. Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Ljóðaganga á sunnudag
Ljóðaganga verður í Hallormsstaðaskógi í samstarfi við Skógræktina á sunnudaginn klukkan 15:00. Gengið verður frá bílastæðinu fyrir ofan Atlavík, eftir skógarstígum og því mikilvægt að mæta vel skóuð og klædd eftir veðri. Gerður Kristný mun lesa úr verkum sínum á völdum stöðum á leiðinni. Sérstakur gesturverður einnig Skúli Björn Gunnarsson. Kaffi og kleinur á áfangastað. Nánar má lesa um viðburðinn hér.