Álfar og huldufólk í kennsluham á Djúpavogi

Álfar og huldufólk hvers kyns mun í framtíðinni koma grunnskólanemum til aðstoðar hvað viðkemur náttúruvísindum á Djúpavogi og nærhéraði í sérstöku appi sem verið er að vinna að. Það sem meira er; nemendurnir sjálfir hanna og stílfæra þær fígúrur sem appið notast við.

Verkefnið Álfur/ELF er samstarfsverkefni hugsmiðjunnar Creatix, grunnskólans á Djúpavogi og eistneskrar ungmennastofnunar en það hefur hlotið tæplega níu milljóna króna styrk úr mennta- og æskulýðssjóði Evrópusambandsins ERASMUS.

„Hugmyndavinnan er komin af stað og nú ætla nemendur grunnskólans á Djúpavogi að aðstoða okkur við hönnun og útfærslu og þá meðal annars hvers konar fígúrur tákna eigi álfana og huldufólkið sem aðstoðar notendur í framtíðinni. Öll tæknivinnan fer svo fram í Eistlandi þegar þar að kemur,“ segir Signý Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Creatix og fyrrum skólastjóri grunnskóla Djúpavogs.

Signý segir appið fyrst og fremst hugsað til að lóðsa áhugasama grunnskólanemendur um tiltekna staði og svæði í og við Djúpavog sem áhugaverð þykja í náttúru- eða sögulegu tilliti. 

„Þetta verður ætlað öllum þeim grunnskólanemum er vilja vita meira um Djúpavog og náttúruna hér í kring og hugmyndin að tengja inn í þá fræðslu hefðir hér á svæðinu og auðvitað CittáSlow hugmyndafræðina líka.“

Hún ítrekar þó að nokkur hugmyndavinna sé enn eftir áður en tæknivinnan taki við og því mun einhver tími líða áður en appið verður til brúks í snjallsímum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar