Breiðdalsá lofar góðu

Roknaveiði hefur verið í Breiðdalsá síðan veður skánaði og dæmi um að allt að fimmtíu bleikjur hafi fengist á þrjár stangir. Segir Þröstur Elliðason hjá Strengjum að þetta lofi mjög góðu og meira líf virðist vera á svæðinu en undanfarin ár á sama tíma. Sjóbleikjuveiði í Fögruhlíðarárósi og á hinum nýju veiðisvæðum í Jöklu hefst 1. júní.

breidals.jpg

 

,,Það mátti hefja silungsveiði í Breiðdalsá 1. maí en hvorki var bókað þá né aðstæður til veiða vegna flóðs í ánni í kjölfar mikilla rigninga“ segir Þröstur Elliðason. ,,Um miðja síðustu viku fór áin að vera veiðanleg og staðarleiðsögumaður skellti sér einn morguninn niður að brú til að athuga hvort bleikjan væri mætt. Og ekki bar á öðru, hann fékk 19 sjóbleikjur, allar 1-2 pund, en engar stórar í það skipti. Þegar fyrsti hópurinn mætti svo á föstudagsmorgun 8. maí var skollið á foráttuveður og ekki mögulegt að veiða megnið af helginni. En þeir sem tóku við hafa hitt frábærlega á veður og veiði og í gær fengust 40-50 bleikjur á þrjár stangir sem bókaðar voru og sumar rígvænar upp í 3,5 pund.  Lofar þetta góðu og virðist vera meira líf á svæðinu en undanfarin ár um þetta leyti.

Veiðimenn sem voru í Minnivallalæk um helgina sögðu að það hefði verið kalt og vindasamt þarna upp frá, en þeir náðu þó þremur góðum fiskum þegar lægði og hlýnaði í stutta stund.

Ágætlega er bókað en þó er hægt að fá daga í silung í Breiðdalsá með stuttum fyrirvara. Sjóbleikjuveiði í Fögruhlíðarós og á hinum nýju Jöklusvæðum hefst svo 1. júní og laxveiðin í okkar ám síðan 1. júlí,“ segir Þröstur.

Mynd/Strengir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar