Byggð myndast fyrir fólk ekki snjómokstur

Þörf er á að byggja upp fjölbreyttar samgöngur því ólíkir hópar fólks nota mismunandi ferðamáta. Þess vegna er þróunin sú að einkabíllinn fær minna rými í nýju skipulagi sveitarfélaga. Við allt skipulag verður að hugsa út í hvað fólk vill og hvernig það mun haga sér.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, landslagsarkitekts og sérfræðings í skipulagsmálum hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra á málþingi Austurbrúar um framtíð Austurlands. Þar fjallaði hún á hreinskilinn hátt um áskoranir við skipulagsgerð þéttbýlis, einkum samspil akandi og gangandi umferðar.

Of algengt að gangstéttir mæti afgangi


Sigurborg sagði að sú þróun að fara úr bílmiðuðu skipulagi, sem byggði á byggð sem dreifir úr sér og landnotkun er aðskilin, yfir í blandaðra skipulag, ekki bara eiga við um borgir heldur nær allt þéttbýli. Hún segir þróunina ekki ganga út á að útrýma einkabílnum heldur að búa til pláss fyrir fleiri samgöngumáta. Þess vegna væri lykilatriði í skipulagi að hugsa um umferðaröryggi.

„Við forgangsröðum öryggi gangandi vegfarenda fremst. Síðan hjólandi og loks akandi. Byggð myndast ekki fyrir snjómokstur eða vörubíla, heldur fyrir fólk. Þess vegna eigum við að forgangsraða því fremst en taka tillit til hinna þáttanna,“ sagði Sigurborg. Hún bætti því við að með því að huga að öryggi gangandi vegfarenda væri sérstaklega hugað að öryggi barna.

Eitt af lykilatriðunum sem hún benti á var að láta gangstéttir ekki mæta afgangi. „Þær eru einn mikilvægasti innviður fólksins því það ganga allir einhvern tíma. Það er of algengt að göturnar séu of breiðar og gangstéttir mæti afgangi. Við verðum að leggja áherslu á gott aðgengi og öryggi fyrir allt fólk, óháð aldri eða getu. Fólk þarf pláss og gangstéttir eiga að vera þriggja metra breiðar,“ sagði hún.

Þöglu hóparnir sem ganga


Sigurborg fjallaði um að í vaxandi mæli blandaðist heimili og atvinna en yngra fólk vildi einnig hafa þjónustu nær sér. Æskilegt væri að starfsemi sem skapi umferð, svo sem matvörubúðir, sé innan göngufæris fyrir sem flesta íbúa. Hún tók sem dæmi umræður á Húsavík, núverandi heimabæjar hennar, um staðsetningu nýrrar verslunarmiðstöðvar sem Samkaup vilja byggja sunnan við bæinn og þar með utan göngufæris flestra. Sigurborg minnti á að í slíkum umræðum heyrðist mismikið í fólki. „Stór hluti erlendra íbúa gengur og eins yngra fólk. Þetta er ekki fólkið sem er virkast í íbúahópum á Facebook. Við verðum samt að hugsa um það.“

Sigurborg ræddi um það hvernig mikilvægt sé að tengja saman mismunandi samgöngukerfi og lýsti því að „heildstætt kerfi vistvænna samgangna“ væri ekki til hérlendis. Með því er átt við að þegar farið sé úr strætó taki við hjólastæði eða góðir göngustígar. Hún kom inn á á hvernig búið sé að strætósamgöngum víða. Oft sé bara einn staur með skilti, jafnvel falinn á bak við eitthvað, sem gefi til kynna hvar stoppistöð sé. Sjaldnast séu hjólaskýli. Byrja megi á að setja bekki og byggja síðan áfram upp.

Of mikið land undir tóm bílastæði


Þétting byggðar hefur verið hluti af því að efla slíkar samgöngur, því hún gerir þær hagkvæmari. Um þéttinguna sagði Sigurborg að mikilvægt væri að ganga ekki á græn svæði. Eitt það dýrmætasta við minni bæjarfélög væri einmitt hve stutt væri í græn svæði. Þess í stað beindi hún spjótum sínum að bílastæðum. „Við eigum vannýttar lóðir, raskað umhverfi eða stór bílastæði sem fyllast kannski eina helgi á ári en eru annars tóm,“ sagði hún og bætti við að margt fólk gæti safnast saman á því 12,5 fermetra svæði sem eitt bílastæði tekur.

Sigurborg hafnaði því að markmið hennar væri að útrýma bílastæðum, slíkt væri glapræði. Það skipti hins vegar máli hvernig þau væru hönnuð. Pláss verði að vera eftir sem áður fyrir fólk til að ganga. Það væri meðal annars gert með því að byggja gangbrautir og færa bílastæðin fjær húsum.

Þá ræddi Sigurborg um leiðarval og uppbyggingu göngustíga. Hún sagði að fólk hefði alltaf tilhneigingu til að ganga stystu leið. Óskastígar sem birtist gefi til kynna að hönnun svæðis hafi ekki verið nógu góð. Fleiri tengingar innan byggðar hvetji fólk síðan til að ganga. Þarna lagði hún sérstaka áherslu á að hlustað væri á börn sem séu þau sem gangi hvað mest og þekki því best hvar þörf sé á göngustígum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar