„Ég lofa æðislegri kvöldstund“
„Ég hef alltaf verið bölvaður asni og þykir gaman að segja sögur og herma eftir karakterum,“ segir Eyþór Ingi Gunnlaugsson sem heldur þrenna tónleika á Austurlandi næstu daga, í Egilsbúð í Neskaupstað í kvöld, Valaskjálf á Egilsstöðum annað kvöld og á Vopnafirði á laugardagskvöld.
„Mér þykir alltaf gaman að koma á Austurland og elska Neskaupstað. Ég spila allskonar tónlist, fer svolítið eftir því í hvaða skapi ég er, ég tek fyrir áhrifavalda, lög sem mér þykir vænt um eða eitthvað nýtt. Á milli laga segi ég sögur og grínast, en það er nú eiginlega bara vegna þess að þannig er ég. Þetta hefur gengið ofboðslega vel og allstaðar smekkfullir kofar mikið klappað og hlegið, sungið og hlustað. Þetta eru fyrst og fremst tónleikar og ég er að reyna vera eins slakur og heimilislegur og hægt er. Ég lofa æðislegri kvöldstund, eða í það minnsta legg ég mitt af mörkum til þess,“ segir Eyþór Ingi sem kemur einn fram og spilar til skiptis á kassagítar, bassatrommu, píanó og rafgítar.
„Það gerir þetta enginn eins og Eyþór Ingi“
Jón Hilmar Kárason, tónlistarmaður í Neskaupstað, segist afar spenntur fyrir tónleikinum. „Ég sá fyrstu tónleikana í þessari röð hjá honum sem voru á Borgarfirði í sumar. Ég var nokkuð viss um hvað ég var að fara að sjá því við höfum oft spilað saman ég hef fylgst vel með því sem hann hefur verið að gera. Hann kom mér aftur á móti algerlega á óvart, hann fer með mann frá því að grenja úr hlátri yfir í að maður fær „eitthvað í augað“ eftir ótrúlegan söng og flutning. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig tónleikarnir hafa þróast síðan í sumar. Ef þeir eru orðnir betri þá bíð ég eiginlega ekki í það. Þessi einstaka blanda af gríni og frábærri tónlist er svolítið mögnuð, það gerir þetta enginn eins og Eyþór Ingi.
Tónleikar hefjast allir klukkan 21:00. Miðasala er á midi.is