Endurvekja hverfastemmningu á Neistaflugi í Neskaupstað

„Við erum að reyna að endurvekja hverfastemmninguna sem var hér á hátíðinni lengi vel þar sem hvert hverfi fyrir sig skreytti sérstaklega í tilteknum litum og miðað við skreytingar víða þá er fólk að taka vel í það sýnist mér,“ segir María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Neistaflugs í Neskaupstað.

Neistaflug fer fram um helgina og þó formlega setning sé venju samkvæmt á föstudagskvöldinu hefst partíið strax annað kvöld þegar bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór halda tónleika í Egilssbúð. Í kjölfarið verður mikil og góð dagskrá langt fram á aðfararnótt mánudags.

María Bóel segist finna fyrir sérstaklega miklum áhuga heimamanna nú sem helgist líklega af því að hátíðin hefur ekki farið fram um tveggja ára skeið vegna Covid.

„Það er margir orðnir langeygir eftir stuðinu sem er alltaf í kringum Neistaflug. Við ætluðum að kýla á þetta í fyrra og vorum langt komin með undirbúning en svo gekk það ekki upp í blálokin. Á móti þá höfum við fengið mjög góða styrki þetta árið og þess vegna getum við boðið upp á sérstaklega spennandi dagskrá.“

Hægt verður að kaupa sérstök armbönd sem veita aðgang að öllum viðburðum sem kostar inn á um helgina en allt annað, þar með talin lokahnykkurinn þegar Helgi Björns og Reiðmenn vindanna, Guðrún Árný og JóiPé og Króli skemmta fólki, er ókeypis fyrir alla. Dagskrána í heild sinni má sjá á fésbókarsíðu Neistaflugs.

Bæjarbúar margir hafa tekið vel í að litamerkja hverfi Neskaupstaðar í tilefni af Neistaflugi um helgina. Mynd María Bóel

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.