Guðmundur Sveinsson fær menningarverðlaun SSA

Guðmundur Sveinsson, forstöðumaður Skjala- og myndasafns Norðfjarðar, hlaut í dag menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem afhent voru á haustþingi sambandsins sem að þessu sinni eru haldið á Breiðdalsvík.

Menningarverðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar.

Guðmundur Sveinsson hóf ungur að taka myndir af fiskiskipum og fylgjast ítarlega með öllu sem átti sér stað í austfirskum sjávarútvegi. Þetta áhugamál leiddi til þess að hann fór að safna gömlum myndum af fiskiskipum og kynna sér ritaðar heimildir um sjávarútveg í fjórðungnum.

Um 1970 urðu þáttaskil í þessari upplýsingasöfnun en þá hóf Guðmundur að koma föstu skipulagi á safn sitt og voru allar heimildir skráðar með sagnfræðilegri nákvæmni. Síðar kom að því að safnið var allt tölvuskráð og er það því öllum nýtanlegt sem þurfa að nota það, meðal annars í sagnfræðilegum tilgangi.

Hefur safnið komið að afar góðum notum, nú síðast við ritun Fáskrúðsfjarðarsögu. Fullyrða má að enginn annar landshluti eigi slíkan upplýsingabanka um þróun fiskiskipaflotans frá skútuöld til nútíma, að því er fram kemur í tilkynningu. Í safni Guðmundar er saga hvers skips rakin og veittar upplýsingar um smíði og eigendasögu.

Í tengslum við söfnun upplýsinga um austfirska fiskiskipaflotann hóf Guðmundur einnig að safna skjölum og myndum um norðfirska sögu almennt. Það starf hans leiddi til þess að bæjarstjórn Neskaupstaðar samþykkti að stofna Skjala- og myndasafn Norðfjarðar árið 1979. Guðmundur hóf þegar að veita safninu forstöðu og sinnir því starfi enn, rúmum fjörutíu árum síðar. Safnið hefur undir forystu Guðmundar eflst stig af stigi og er annað af tveimur viðurkenndum héraðsskjalasöfnum á Austurlandi.

Skjala- og myndasafn Norðfjarðar leggur áherslu á tvo meginþætti í starfsemi sinni. Annars vegar söfnun og skráningu gagna og mynda um norðfirska sögu og hins vegar söfnun gagna og mynda um austfirskan sjávarútveg. Sá þáttur starfseminnar sem lýtur að sjávarútvegnum byggir á því merka starfi sem Guðmundur hefur sinnt frá unga aldri, og gerir enn af krafti. Í sumar hefur hann ferðast um landið á húsbílnum sínum til að ná myndum af skipum sem vantar í safnið.

Einstakt starf

Í rökstuðningi stjórnar SSA fyrir verðlaununum segir meðal annars að ekki fari milli mála að starf Guðmundar á sviði söfnunar heimilda um austfirskan sjávarútveg sé einstakt.

„Það sem gerir starf hans einkum merkilegt er að það varðar heilan landshluta og skiptir máli fyrir mörg byggðarlög, ekki síst þegar unnið er að ritun sögu þeirra.

Það vill bera við að verðlaun og viðurkenningar falla þeim í skaut sem mest áberandi eru fyrir verk sín hverju sinni, og geta þeir sannarlega verið maklegir þess að hljóta viðurkenningu. Hins vegar er mikilvægt að horfa einnig til þeirra sem langa ævi hafa jafnt og þétt lagt mikið af mörkum til samfélags og menningarlífs, þó ekki fari það alltaf hátt.“

Auk þess sem þegar er getið hefur Guðmundur lagt mikið af mörkum við söfnun sögulegra minja í byggðunum við Norðfjörð. Þá hefur hann undanfarin ár haft umsjón með Safnahúsinu í Neskaupstað og verið vakinn og sofinn yfir því að sýningar þar séu aðgengilegar áhugasömum gestum og heimafólki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar