Hæfileikakeppni í heimi án olíu

Listaakademía Verkmenntaskóla Austurlands frumsýnir um helgina nýtt leikverk sem hlotið hefur heitið „Hæfileikarnir.“ Með því vaknar leiklistarstarfsemi í skólanum aftur úr dvala en síðast var sett upp verk þar árið 2019.

„Þetta var orðið þungt fyrir Covid-faraldurinn. Stytting framhaldsskólans í þrjú ár hafði áhrif á allt félagslíf en nú erum við að reyna að endurvekja þessa hefði,“ segir Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, sem fer fyrir listaakademíu VA.

Listaakademían er í raun áfangi sem nemendur með áhuga á listum geta valið. Á haustönn er þar venjan fyrir fleiri minni verkefnum en á vorönn hefur verið stefnt á stærri viðburð, yfirleitt leiksýningu.

Ekkert er eins og það var


Hæfileikarnir er nýtt verk, samið af leikstjóranum Sigrúnu Sól Ólafsdóttur og leikhópnum. Verkið gerist í heimi þar sem jarðefnaeldsneyti er þrotið og því orkuskortur. Að ferðast kostar rafmagn, sem er afar dýrmætt og því getur enginn gert það nema með sérstöku leyfi sem veitt er til að taka þátt í hæfileikakeppni.

Til þeirrar keppi safnast ýmsar persónur en þær lenda í slysi uppi á hálendi Íslands og þurfa að leggja allt undir til að komast af. „Hugmyndin er fenginn frá atburðum eins og Covid-faraldrinum og hamförunum þar sem veruleikinn fer á hvolt og ekkert sem okkur finnst eðlilegt er eins og það var,“ útskýrir Margrét Perla.

Þrátt fyrir þungan undirtóninn þá er eftir sem áður að finna glettni í verkinu auk þess sem tónlist, sem flutt er af meðlimum norðfirsku hljómsveitarinnar Dusilmennum, léttir andrúmsloftið. „Hver lekari hefur skapað sínar persónur. Hver leikur tvær, eina aðal og aðra auka. Fyndin kemur ekki síst fram í aukapersónunum,“ bætir hún við.

Mikill lærdómur í sýningunni


Margrét Perla segir leiklistina góða viðbót við námið í VA. Þess vegna hafi vinna verið lögð í að endurvekja hana. „Þótt ég hafi komið að leiksýningum þá er ég ekki leikhúsmanneskja í grunninn. Þess vegna finnst mér áhugavert að sjá hvað krakkarnir læra á að taka þátt.

Þeir fara út fyrir þægindaramma sinn, það hafa ekki allir leikið áður fyrir áhorfendur. Það þarf líka að axla ábyrgð. Nemandi sem klúðrar áfanga í skólanum skemmir bara fyrir sjálfum sér en klúður þarna getur skemmt fyrir heilum hópi.

Þau taka líka þátt í að skapa og finna lausnir, svo sem í búningum og leikmynd fyrir utan að hafa skapað persónur og samið leiktexta. Þetta er allt góð þjálfun fyrir lífið.

Þetta gefur líka skólanum líf. Þess vegna hefur mikil vinna verið lögð í að koma leikverkunum aftur af stað,“ segir Margrét Perla að lokum.

Verkið verður sýnt þrisvar, frumsýnt á morgun laugardag og seinni tvær sýningarnar verða á sunnudags- og mánudagskvöld.

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar