Helgin: Átján ára og semur tónlist upp úr Eddukvæðum

Kormákur Valdimarsson er annar þeirra tveggja tónlistarmanna sem koma fram á tónleikaröðinni Strengjum í Tónspili um helgina. Kormákur tók þátt í skapandi sumarstörfum í Fjarðabyggð í sumar og nýtti tímann til að vinna plötu með tónlist sem hann byggði á íslenskum fornsögum.

„Ég ólst mikið upp við að hlusta á Þursaflokkinn og var hrifinn af fornsögunum. Ég fór sirka 11 ára gamall á bókasafnið og tók þar Laxdælu á forníslensku. Ég skildi síðan ekkert í henni.

Hugmyndin um að semja við Eddukvæðin hefur heillað mig lengi. Þau, einkum Völuspá, lýsa vel landslaginu og öðru frá þessum tíma og falla þannig vel að ambient-tónlist, sem ég hef líka mikinn áhuga á. Mér fannst því tilvalið að blanda þessu tvennu saman,“ segir Kormákur.

Sótti í nytjamarkaðinn til að gera geisladiska


Hann er ættaður úr Neskaupstað og að hluta til alinn þar upp en stundar núna nám á tónlistarbraut við sænskan framhaldsskóla. Hann hefur síðustu tvö sumur tekið þátt í skapandi sumarstörfum í Fjarðabyggð og nýtt tímann í sumar til að klára plötu sem hann einfaldlega kallar „Eddukvæði.“

Platan var að miklu leyti tekin upp í nýrri aðstöðu í Tónspili en útgáfutónleika hélt hann í byrjun ágúst heima hjá ömmu sinni og afa, Guðmundi Höskuldssyni og Sigrúnu Víglundsdóttur. „Ég nota mikið rafhljóðfæri á plötunni en á tónleikunum spilaði ég hana á píanó, enda samdi ég hana þar.

Það var gaman hvað margir mættu og ég seldi nokkra diska. Ég hafði keypt tóma diska í nytjamarkaðinum Steininum og brenndi tónlistina á þá sjálfur. Ég keypti líka „Stóru fuglabókina“ í Steininum, klippti út fuglamyndir og bjó þannig til einstakt umslag fyrir hvern disk.“

Fann Sæmundareddu á sænskri fornbókasölu


Kormákur segist upphaflega hafa ætlað sér að semja eitt samfellt verk þar sem hann syngi alla Völuspá með sérstakri laglínu við hvert kvæði en það reyndist of mikið og í staðinn valdi hann nokkur kvæði til að semja við. Hann studdist við gamla, erlenda útgáfu af kvæðunum.

„Ég átti leið inn í fornbókabúð hér í Svíþjóð og spurði hvort þar væri til eitthvað á íslensku. Afgreiðslumaðurinn fór inn á lager og kom til baka með útgáfu af Sæmundareddu, sem geymir nær öll íslensku fornkvæðin. Bókin var gefin út í Leipzig í Þýskalandi um árið 1880. Ég keypti bókina undir eins enda var hún vel með farin. Ég hafði hana síðan með mér niður í Tónspil, fletti upp kvæðum og samdi við þau.“

Kormákur syngur þó ekki kvæði, heldur smíðar utan um þau hljóðheim. Hann sækir líka í Þursaflokkinn þegar hann gerir sínar útgáfur af lögunum „Hættu að gráta Hringaná“ og „Stóðum tvö í túni“. „Þetta eru einu tvö lögin sem aðeins eru spiluð á gítar. Ég hef gaman af að gera gítarútgáfur af lögum og mér fannst þessi lög falla vel til þess. Ég vildi líka hafa lög sem fólk þekkti til að létta aðeins stemminguna.“

Á tónleikunum, sem hefjast í Tónspili klukkan 20:00 á sunnudagskvöld, kemur einnig fram gítarleikarinn Mikael Máni, sem spilar bæði sín lög og annarra. Mikael Máni blandar saman margvíslegum tónlistarstefnum svo sem þjóðlagatónlist, blús og jazz. Plata hans „Guitar Poetry“ kom út fyrr á þessu ári hjá þýsku útgáfufyrirtæki.

Fjórða pólska kvikmyndahátíðin


Af öðrum viðburðum helgarinnar má nefna að pólsk kvikmyndahátíð verður haldin í Valhöll á Eskifirði í fjórða sinn um helgina. Aðalmynd hátíðarinnar kallast á ensku „Pesants“ og byggir á bók eftir Nóbelsverðlaunahafann Władysław Reymont. Kvikmyndin er einstök fyrir það að myndin í heild sinni er handmáluð ramma fyrir ramma.

Í Skaftfelli á Seyðisfirði verður Örn Alexander Ámundason með listamannaspjall klukkan 13:00 á morgun um sýninguna „Titill á sýningu“ sem opnaði í byrjun mánaðarins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar