Heltekinn af veiðiþrá
Boði Stefánsson hefur verið meindýraeyðir á Austurlandi í rúmlega 30 ár. Hann segir eftirspurn eftir þjónustu sinni hafa aukist, fyrst með sólpöllum og síðan aukinni vitund.„Það var tilviljun að ég fór á þetta námskeið. Ég hafði stundað minkaveiðar sem aukavinnu með búskap frá 1987. Rótin að því var að árið 1979 sá ég í fyrsta sinn tófu á hlaupum. Það var í Kaldártungum í Jökulsárhlíð.
Sennilega er þetta svipað og þegar fólk með hestabakteríu sér hross í fyrsta skipti, þá fær það hestadellu sem það læknast aldrei af.
Ég varð alla vega heltekinn af veiðiþrá og hef ekki jafnað mig síðan. Líklega er hún í blóðinu. Ég hugsaði varla um annað en tófur í mörg ár og var staðráðinn í að eignast byssu og komast að sem refaskytta hjá sveitarfélaginu. En það voru eldri og reyndari menn þar fyrir, svo ég þurfti að bíða þolinmóður eftir að minn tími kæmi.
Kunningi minn benti mér þá á að fara í minkaveiðar á meðan ég væri að bíða og síðar kom meindýranámskeiðið til tals, hann taldi að það gæti verið gott fyrir mig að hafa þetta með búskapnum og ég sló til,“ segir Boði um af hverju hann hafi farið á námskeið í meindýravörnum árið 1993.
„Það var rólegt í meindýrunum fyrstu árin. Það kom dálítill kippur þegar sólpallar komust í tísku og fólk vildi láta eyða klettaköngulóm, sem komu sér þar fyrir. Útköllum vegna meindýra hefur hins vegar fjölgað síðustu árin, sennilega er fólk bara orðið meðvitaðra.“
Silfurskottan lífseig
Mörgum stendur stuggur af að láta eitra fyrir músum og öðrum meindýrum. Fólk finnur til með músunum og finnst aðferðin harðneskjuleg. Annað óttast að skordýraeitur sem notað er í íbúðarhúsnæði sé ekki hollt, jafnvel hættulegt.
Boði segir að sá ótti sé ástæðulaus. Efnin geti vissulega verið hættuleg við innöndun, en um leið og þau séu þornuð stafi fólki engin hætta af þeim. Í flestum tilfellum þurfi fólk að yfirgefa íbúðina í fáeinar klukkustundir, í mesta lagi í sólarhring.
„Meindýr í húsum og híbýlum fólks hafa fylgt mannkyninu alla tíð og valdið skemmdum á mat, fatnaði og byggingum, t.d. einangrun, síma- og raflögnum.
Af skordýrum er silfurskottan algengust. Þetta er lítið, silfurgrátt skriðdýr, mjög ljósfælið, en elskar myrkur og raka. Hún lifir góðu lífi í skolplögnum og húsgrunnum, til dæmis.
Veggjalús hefur færst í aukana með aukningu ferðamanna, en mölfluga, sem einnig er silfurgrá og ekki ólík silfurskottu, nema eilítið stærri, er orðin frekar sjaldgæf, enda kemur hún sér fyrst og fremst fyrir þar sem ullarfatnaður liggur óhreyfður í skápum í lengri tíma, eða ull af einhverju tagi. Nú er mest af fatnaði úr gerviefnum, sem mölflugan hefur engan áhuga á. Hún er samt til staðar um allt land og skýtur upp annað slagið ef réttar aðstæður skapast.
Veggjatítla getur valdið miklum skemmdum í timburhúsum og mjög erfitt er að drepa hana þar sem hún hefur náð að koma sér fyrir á annað borð. Það er þó mögulegt með sérstöku frystiefni, kuldabyssum, sem slökkvilið landsins hafa mörg hver í fórum sínum. Veggjatítla er hins vegar mjög sjaldgæf á Austurlandi og ég man aðeins eftir tveimur tilfellum.
Það er rétt að taka það fram að meindýr eru ekki bundin við gömul hús. Þau gera engan greinarmun á því hvort húsið var byggt í gær eða fyrir hálfri öld. Silfurskottan getur ferðast á milli hæða og á milli íbúða í raðhúsum eftir lagnakerfum og er ótrúlega lífseig. Það þarf því samhent átak til að eyða henni í fjölbýli. Hún dreifir sér þó líklega ekki á milli húsa nema með dóti og húsgögnum.“
Mýs á toppnum
Langflest útköll eru vegna músagangs. Oftast er það húsamúsin, enda trúlega algengasta spendýr jarðar á eftir manninum og lifir oft í nábýli við hann. Svartrotta kemur fyrir annað slagið, helst með skipum eða öðrum innflutningi. Brúnrotta hefur varla sést á Austurlandi í áraraðir
„Þegar músaeitur kom til sögunnar héldu menn að hægt yrði að útrýma músum og rottum fyrir fullt og allt, en sú varð nú ekki raunin. Þetta eru slóttug dýr og dugleg að bjarga sér. Og það virðist vera sama hve vel er gengið frá húsum, alltaf finnur músin sér leið inn.
Það er talið að fullvaxnar mýs geti komist inn um göt og rifur sem eru ekki nema 1-2 sentimetrar, og sumir segja allt niður í 6 millimetra. Þær virðast geta lagt saman höfuðbeinin og verða nánast eins og mjór þráður. Þær geta klifrað marga metra upp lóðrétta veggi og kapla, stokkið yfir 30 sentimetra bil og látið sig falla 2-3 metra niður á gólf án þess að meiða sig. Þannig að það er meira en að segja það að gera hús músheld.“
Geta verið sóttberar
Rottur, mýs, villikettir, og jafnvel dúfur sem lifa villtar í þéttbýli, hafa löngum verið álitin vera sóttberar af verstu gerð. Og þótt alvarlegir sjúkdómar eða faraldrar hafi ekki verið raktir til þeirra í marga áratugi, þá er sannarlega óþrifnaður að þeim í húsum og híbýlum fólks. Talið er að meindýr hafi áður fyrr borið með sér og dreift hættulegum sjúkdómum á borð við svartadauða, taugaveiki og hundaæði.
„Það er ekkert sem mælir gegn því að slíkt geti ekki gerst aftur og því er ástæða til að gæta hreinlætis og halda meindýrum í skefjum,“ segir Boði. „Mörgum finnast mýs vera falleg og vinaleg dýr, sem þær vissulega eru á sinn hátt. Sumir gefa þeim jafnvel að éta og handleika þær ef þær spekjast. Það er því rétt að benda á að músabit geta verið hættuleg, einkum ef mýsnar bíta til blóðs, og ætti því alltaf að leita læknis ef slíkt gerist.“
Skotveiði, hundar og útivist
Boði er fæddur á Ísafirði en fluttist fimm ára að Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð ásamt móður sinni og yngri bróður sínum, Halldóri, fuglasérfræðingi hjá Náttúrustofu Austurlands. Þeir voru áfram í skóla á Ísafirði og bjuggu hjá afa sínum og ömmu en komu austur á vorin.
Þeir reyndu báðir fyrir sér í búskap á Hrafnabjörgum, fyrst Halldór með kýr, síðan Boði sem skipti yfir í sauðfé. Búskapnum var hætt um aldamótin, Boði bjó um tíma í Skóghlíð en hefur búið á Egilsstöðum síðan 2011. Veiðin er hans helsta áhugamál.
„Það má segja að það hafi orðið kaflaskil í mínu lífi þegar ég fór í minkaveiðina. Það var hins vegar þegar ég fékk fyrsta minkahundinn að ég áttaði mig á að það varð ekki aftur snúið. Það var mikil upplifun að kynnast þessum vinnusömu hundum, – og í framhaldi að rækta þá. Útiveran, náttúran og göngur um hálendið eiga vel við mig.
Skotveiði hefur verið ástríða hjá mér alveg frá því að ég eignaðist fyrstu byssurnar, haglabyssu og riffil, 1982. Ég var refaskytta á Hólsfjöllum í 20 ár ásamt vini mínum Gunnlaugi Ólafssyni. Við bræðurnir stunduðum rjúpnaveiði í atvinnuskyni um árabil, eða þar til hún var bönnuð sem slík um aldamótin, um það leyti sem ég hætti búskap.
Bannið kom okkur reyndar á óvart. Þegar ég flutti í Skóghlíð keypti ég stóra frystikistu, sem ég ætlaði að fylla af rjúpu um haustið. Áður en til kom var bannið sett á og það fór aldrei ein einasta rjúpa í kistuna. En þetta var góð kista og allt í lagi með það, hún kom að góðum notum,“ segir Boði og hlær.
„Ég skil vel fólk sem er mótfallið rjúpnaveiði. Rjúpan er fallegur fugl og gerir engum mein. En hún er líka besti matur í heimi og hefur verið jólamatur margra Íslendinga frá ómuna tíð. Rjúpnaveiði er því mjög rík hefð hér á landi og persónulega finnst mér ekki rétt að banna hana alfarið, eins og sumir vilja.
Ég tel afskaplega litlar líkur á að skotveiði muni útrýma rjúpunni. Hún kemur upp svo mörgum ungum á hverju ári, líklega 12 ungum að jafnaði. Árferði hefur miklu meiri áhrif en skotveiðin, en að sjálfsögðu er rétt að gæta hófsemi í þessu eins og öðru.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.