Þingað um framtíð Seyðisfjarðar á morgun

Boðað hefur verið til málþings um þróun atvinnutækifæra í menningu og ferðaþjónustu á Seyðisfirði. Velt verður upp spurningunni um hvernig virkja megi hæfileika fólksins og menningararfinn til að bæta afkomu íbúanna.  Málþingið fer fram í Félagsheimilinu Herðubreið, bíósal, á morgun, föstudag, kl. 13:00.

seyisfjrur_vefur.jpg

Unnið hefur verið að stefnumótun í menningar- og ferðamálum á Seyðisfirði undir heitinu Aldamótabærinn Seyðisfjörður  um nokkurt skeið. Um verkefnið var myndaður klasi sem hlaut styrk frá Vaxtasamningi Austurlands. Klasinn réði til sín landslagsarkitekt með sérfræðiþekkingu á markaðsmálum og í alþjóðlegum viðskiptum. Það var víða komið við í leitinni að „réttu“ stefnunni með menningararfinn í forgrunni. Margar góðar hugmyndir voru viðraðar, sumar þeirra lentu beint í glatkistunni, aðrar rötuðu í skýrslu sem verður kynnt á málþinginu.

Á málþinginu verður einnig komið inn á móttöku skemmtiferðaskipa. Er um að ræða brot úr námskeiðinu sem Útflutningsráð og samtökin  Cruise Iceland stóðu fyrir í vetur og var nefnt „Komdu í land.“

 

Í lok málþingsins um klukkan 15:30 verður ferðaþjónustuaðilum í bænum boðið í lautaferð út að Dvergasteini.  Dvergasteinn stendur í flæðarmálinu neðan við samnefnda forna kirkjujörð. Þjóðsagan um Dvergastein og ferðalag hans yfir fjörðinn, er landsþekkt. Steinninn er sérkennilegur að lögun og stingur í stúf við umhverfið. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.