Nunnuklaustur á Egilsstöðum

Stofna á nunnuklaustur að Lagarási 18 á Egilsstöðum, þar sem Lyfja er nú til húsa. Apótekið mun flytja í 150 fermetra húsnæði hjá Samkaupum við Kaupvang á Egilsstöðum seint í haust. Lyfja selur nú húsið að Lagarási og rýmir íbúð á efri hæð innan þriggja mánaða, en verslunarpláss innan sex mánaða, samkvæmt upplýsingum frá lyfsalanum, Öddu Birnu Hjálmarsdóttur. Gert er ráð fyrir íbúðarherbergjum fyrir nunnur á efri hæð og í kjallara hússins á Lagarási, en kirkju og kaffiaðstöðu á jarðhæð. Aðeins eitt nunnuklaustur er nú starfrækt á Íslandi, en það er Karmel-klaustrið í Hafnarfirði, sem stofnað var á haustdögum 1940.index_cinese.jpg

 

Munkaklaustur rómversk-kaþólskra kapúsínamunka í Þorlákssókn er á Kollaleiru í Reyðarfirði. Það var stofnað í júlí árið 2007 og er fyrsta munkaklaustur á Íslandi frá siðaskiptum og fyrsta klaustur á Austurlandi í 450 ár, eða síðan Skriðuklaustur lagðist af.

 Samanlagt voru ellefu klaustur stofnuð á Íslandi í kaþólskum sið. Tvö þeirra, í Flatey og Hítardal, voru einungis starfrækt í fáein ár. Klaustrin á Íslandi voru ýmist af Benedikts- eða Ágústínusarreglu, en ekkert bendir til að klaustrin hafi haft formleg tengsl við klaustur erlendis. Klaustrin urðu sjálfseignarstofnanir og þau voru miðstöðvar menntunar og menningarlífs ásamt skólunum á biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum. Við Siðaskiptin 1550 voru níu klaustur starfrækt á Íslandi. Tvö þeirra voru nunnuklaustur, Kirkjubæjarklaustur í Skaftafellssýslu, stofnað 1186 og Reynistaðaklaustur í Skagafirði, stofnað 1295. Bæði nunnuklaustrin voru af Benediktsreglu. Fyrsta munkaklaustrið var Þingeyraklaustur í Húnafirði og var það stofnað 1133. Það var af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur í Eyjafirði sem var stofnað 1155. Á Hítardal á Mýrum var klaustur af reglu Benedikts á árunum 1166 - 1201.
Öll hin munkaklaustrin voru af Ágústínusarreglu, það elsta var Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri, stofnað 1168. Ár 1172 var stofnað klaustur í Flatey á Breiðafirði en það var flutt til Helgafells 1184. Viðeyjarklaustur var stofnað 1226, Möðruvallaklaustur í Eyjafirði 1296 og Skriðuklaustur á Héraði 1493. Við siðaskiptin sem lögtekin voru af Alþingi 1541 voru klaustrin lögð af og flest þeirra eyðilögð, þeir munkar og nunnur sem ekki vildu skipta um sið voru drepin eða send í útlegð og allar eignir klaustranna gerðar upptækar fyrir hönd Danakonungs. (Wikipedia).
mappar.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.