Nunnuklaustur á Egilsstöðum
Stofna á nunnuklaustur að Lagarási 18 á Egilsstöðum, þar sem Lyfja er nú til húsa. Apótekið mun flytja í 150 fermetra húsnæði hjá Samkaupum við Kaupvang á Egilsstöðum seint í haust. Lyfja selur nú húsið að Lagarási og rýmir íbúð á efri hæð innan þriggja mánaða, en verslunarpláss innan sex mánaða, samkvæmt upplýsingum frá lyfsalanum, Öddu Birnu Hjálmarsdóttur. Gert er ráð fyrir íbúðarherbergjum fyrir nunnur á efri hæð og í kjallara hússins á Lagarási, en kirkju og kaffiaðstöðu á jarðhæð. Aðeins eitt nunnuklaustur er nú starfrækt á Íslandi, en það er Karmel-klaustrið í Hafnarfirði, sem stofnað var á haustdögum 1940.
Munkaklaustur rómversk-kaþólskra kapúsínamunka í Þorlákssókn er á Kollaleiru í Reyðarfirði. Það var stofnað í júlí árið 2007 og er fyrsta munkaklaustur á Íslandi frá siðaskiptum og fyrsta klaustur á Austurlandi í 450 ár, eða síðan Skriðuklaustur lagðist af.
Öll hin munkaklaustrin voru af Ágústínusarreglu, það elsta var Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri, stofnað 1168. Ár 1172 var stofnað klaustur í Flatey á Breiðafirði en það var flutt til Helgafells 1184. Viðeyjarklaustur var stofnað 1226, Möðruvallaklaustur í Eyjafirði 1296 og Skriðuklaustur á Héraði 1493. Við siðaskiptin sem lögtekin voru af Alþingi 1541 voru klaustrin lögð af og flest þeirra eyðilögð, þeir munkar og nunnur sem ekki vildu skipta um sið voru drepin eða send í útlegð og allar eignir klaustranna gerðar upptækar fyrir hönd Danakonungs. (Wikipedia).