Síminn lokar á nafnlaus sms af vefsíðu

Ekki er lengur unnt að senda nafnlaus SMS skilaboð af vefsíðu  Símans, heldur verða öll SMS skilaboð auðkennd með símanúmeri sendanda. Tilgangurinn er að auka öryggi við notkun SMS skilaboða. Einungis viðskiptavinir Símans munu eftirleiðis geta nýtt sér Vef-SMS og þá eingöngu með því að auðkenna sig með símanúmeri.  Viðtakandi SMS-skilaboða veit því ávallt hver sendandinn er.

Þess eru dæmi að þjónusta á borð við auðkennislaus SMS hafi verið misnotuð í viðskiptum með fíkniefni sem og í eineltismálum.

siminn_logo_allcolors.jpg

Í tilkynningu frá Símanum segir að fyrirtækið hafi átt í góðri  samvinnu við SAFT,  Vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi, sem fagnar þessari ákvörðun.  SAFT skilgreinir rafrænt einelti líkt og annað einelti, það er þegar einstaklingur verður fyrir endurteknu neikvæðu áreiti frá öðrum einstaklingi eða einstaklingum og á erfitt með að verjast því. Ein leið rafræns eineltis er þegar nafnlaus SMS eru notuð til að koma niðrandi og oft og tíðum meiðandi upplýsingum um einstakling á framfæri.”

 

Ennfremur hefur Ungmennaráð SAFT þetta að segja um nafnlaus SMS:

“Það er ekki fallegt þegar stelpur senda SMS á strákana í bekknum og látast vera einhverjar aðrar sem eru skotnar í þeim og strákarnir trúa þessu” – Fanndís 14 ára.

“Ef maður fær nafnlaust SMS “Komdu að leika uppi í skóla” þá veit maður ekkert hvern maður á að fara að hitta” – Linda 12 ára.

Þjónustan verður án endurgjalds fram til 1. september en þá mun Síminn setja lágmarksgjald á hvert SMS.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar