Snjóflóðaleitarhundar prófaðir í Oddsskarði

Ellefu hundar og eigendur þeirra víða af landinu verða í Oddsskarði um helgina þar sem fram fer árleg úttekt á snjóflóðaleitarhundum. Undanfarið ár hefur aðeins verið einn hundur með gilt próf á Austfjörðum. Hundaþjálfari af svæðinu segir þörf á fleirum.

„Tímaramminn sem við höfum til að bjarga manneskju úr snjóflóði er mjög þröngur. Það eru 80% líkur að manneskja sem lendir í snjóflóði sé lifandi eftir 20 mínútur en síðan minnka líkurnar hratt.

Þess vegna koma snjóflóðaleitarhundar fyrst og fremst til bjargar í sínu byggðarlagi. Þess vegna vegna vantar okkur fleiri hunda hér á Austfjörðum,“ segir Björn Óskar Einarsson úr Björgunarsveitinni Ársól á Reyðarfirði.

Þrír snjóflóðaleitarhundar á Austfjörðum


Í Oddsskarði um helgina eru 11 hundar þar af þrír af Austfjörðum. Aðeins einn þeirra er með gilt próf en hinum tveimur gekk ekki nógu vel í fyrra en þeir þurfa að fara í próf árlega. Að auki eru hundar frá Eyjafirði, úr Aðaldal og Flateyri. Til viðbótar við þessa hunda er öflug björgunarhundasveit á suðvestanverðu landinu.

Björn Óskar er með sjö ára gamlan border collie hund, sem er hans annar snjóflóðaleitarhundur. Hann hefur verið með leitarhund frá árinu 2009 en þá voru um 8-9 virkir hundar á Austfjörðum. Þrjú ár tekur að fullþjálfa hund og ef heilsan er góð getur hundurinn átt tíu ára feril.

Sjálfboðaliðar grafnir í snjóinn


Vinnan í Oddsskarði byrjaði í gær og stendur til sunnudags því prófin eru fjögur og þurfa pörin, því hundar og menn verða að vinna vel saman, að standast þrjú próf. Þau fela það meðal annars í sér að finna manneskju sem grafin er niður í snjó á um 1,5 metra dýpi. Tveir sérfræðingar frá Bretlandi eru komnir austur til að dæma og leiðbeina.

Skýringuna á því hvers vegna hundarnir eru ekki fleiri á Austfjörðum eða landsbyggðinni almennt, segir Björn Óskar vera að um sjálfboðaliðastarf sé að ræða og nokkra skuldbindingu, samt ekki alltaf mikið meiri en almennt að eiga hund. Þjálfunin getur þó verið krefjandi, ekki bara parið heldur aðstandendur sem fengnir eru til að grafa sig í fönn og bíða þess að vera bjargað.

Um helgina eru það félagar úr Björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað, einkum unglingadeildinni, sem taka það hlutverk að sér en löng hefð er fyrir samstarfi milli sveitarinnar og fólks með snjóflóðaleitarhunda. „Það er ekki hægt að þjálfa hundinn einn og því eiga allir þeir sem aðstoða okkur heiður skilinn,“ segir Björn Óskar.

Helgin er einnig nýtt í almenna þjálfun fyrir björgunarsveitir á svæðinu, einkum í snjóflóðaleit. „Moksturstæknin skiptir til dæmis máli. Ef tveir einstaklingar eru á ferð og annar lendir í snjóflóði tekur tvær mínútur að finna hann, sé hann með ýlu og aðrar tvær að staðsetja hann nánar. Síðan tekur 15 mínútur að moka hann upp. Þess vegna er tæknin mikilvæg. Minna reynt fólk fær að prófa ýmis tæki og síðan er farið yfir hvernig eigi að klæða sig, þannig við reynum að taka allt út úr þessu.“

Mynd: Davíð Þór Friðjónsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar