„Þvældist með afa um allar trissur og fylgdist með honum spila í Lagarfljótsorminum“

Karlotta Sigurðardóttir er meðal þeirra sem koma fram á tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði á morgun. Hún er ættuð frá Borgarfirði af mikilli tónlistarætt og segir sönginn í blóðinu. Karlotta sendi í vor frá sér stuttskífu sem hún tók að miklu leyti upp í Tælandi.

„Það er geggjað að fara að spila á Bræðslunni. Ég hef lítið komið fram í fjölmenni síðan ég söng í Söngkeppni sjónvarpsins árið 2016. Það eykur líka á spennuna að afi er líka að fara að koma fram,“ segir Karlotta.

Hún og afinn, Jón Arngrímsson, eru þó sitt í hvoru lagi á dagskrá Bræðslunnar en Jón kemur fram með öðrum uppöldum Borgfirðingi, Valgeiri Skúlasyni. „Ég var oft fyrir austan í nokkrar vikur á hverju sumri hjá afa. Hann vinnur við allt mögulegt og ég þvældist með honum um allar trissur. Mér fannst ekki leiðinlegt að fara með honum til að horfa á hann spila, þar á meðal í gamla góða Lagarfljótorminum. Síðan fór ég í tónlistarbúðir á Eiðum tvö sumur í röð og fannst það æði,“ segir Karlotta.

Karlotta hefur eins og fleira fólk með tengsl við Borgarfjörð fylgt Bræðslunni eftir. „Ég hef komið á hana flest ár. Fyrsta árið var ég það lítil að ég mátti ekki fara inn heldur var fyrir utan að leika mér í sílapollinum. Það er því mér mjög hjartnæmt að spila á hátíðinni.“

Glímdi við tímamismun og loftkælingar við upptökurnar


Karlotta sendi í vor frá sér EP-plötuna Headroom. Lagið „Freefalling“ hefur fengið nokkra spilun og verið á vinsældalista Rásar 2 í sumar. Platan er að miklu leyti unnin í Tælandi þar sem Karlotta bjó í fyrra en hún hefur að mestu dvalið erlendis undanfarin sex ár. „Ég fór fyrst ein í heimsreisu og svo hætti hún eiginlega aldrei. Ég hef búið á Balí, Tælandi og Spáni,“ segir Karlotta sem fluttist heim fyrr á þessu ári. „Ég er komin heim í bili, þótt ég viti eiginlega aldrei hvert ég stefni.“

Síðasta ár reyndi á Karlottu, hún fékk veirusýkingu sem illa gekk að greina og lenti síðan í tveimur mótorhjólaslysum þar sem hún fótbrotnaði illa því seinna. Af þeim sökum var hún rúmliggjandi um helminginn á síðasta ári en nýtti það í tónlistina. „Ég átti mjög átakanlegt ár í fyrra sem að gaf mér fullt andrými til þess að semja og skapa nýja tónlist.

Ég tók plötuna upp með Bjarka Ómars eða Bómars í gegnum Facetime. Ég tók sönginn upp inni í herbergi. Í Tælandi eru loftkælingar út um allt þannig áður en ég tók upp þurfti ég að kæla herbergið vel niður og slökkva svo á loftkælingunni þannig suðið í henni truflaði ekki. Síðan gat ég unnið þar til varð of heitt aftur. Tímamunurinn var samt það erfiðasta í þessu samstarfi þótt það væri mjög kúl að geta unnið svona í gegnum netið.“

Nýtt lag og myndband bætast við hjá Karlottu í ágúst sem fylgir þá plötunni eftir með fleiri tónleikum. Tveir Austfirðingar eru í hljómsveitinni með henni, Kristófer Nökkvi Sigurðsson trommuleikari og föðurbróðir hennar, Óli Rúnar Jónsson gítarleikari en tónlistin er rík í ættinni. „Fólk spyr hvar ég hafði lært að syngja og spyr á móti eins og það sé eðlilegasti hlutur hvort það hafi ekki allir sungið síðan þeir fæddust.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar