„Þvældist með afa um allar trissur og fylgdist með honum spila í Lagarfljótsorminum“
Karlotta Sigurðardóttir er meðal þeirra sem koma fram á tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði á morgun. Hún er ættuð frá Borgarfirði af mikilli tónlistarætt og segir sönginn í blóðinu. Karlotta sendi í vor frá sér stuttskífu sem hún tók að miklu leyti upp í Tælandi.„Það er geggjað að fara að spila á Bræðslunni. Ég hef lítið komið fram í fjölmenni síðan ég söng í Söngkeppni sjónvarpsins árið 2016. Það eykur líka á spennuna að afi er líka að fara að koma fram,“ segir Karlotta.
Hún og afinn, Jón Arngrímsson, eru þó sitt í hvoru lagi á dagskrá Bræðslunnar en Jón kemur fram með öðrum uppöldum Borgfirðingi, Valgeiri Skúlasyni. „Ég var oft fyrir austan í nokkrar vikur á hverju sumri hjá afa. Hann vinnur við allt mögulegt og ég þvældist með honum um allar trissur. Mér fannst ekki leiðinlegt að fara með honum til að horfa á hann spila, þar á meðal í gamla góða Lagarfljótorminum. Síðan fór ég í tónlistarbúðir á Eiðum tvö sumur í röð og fannst það æði,“ segir Karlotta.
Karlotta hefur eins og fleira fólk með tengsl við Borgarfjörð fylgt Bræðslunni eftir. „Ég hef komið á hana flest ár. Fyrsta árið var ég það lítil að ég mátti ekki fara inn heldur var fyrir utan að leika mér í sílapollinum. Það er því mér mjög hjartnæmt að spila á hátíðinni.“
Glímdi við tímamismun og loftkælingar við upptökurnar
Karlotta sendi í vor frá sér EP-plötuna Headroom. Lagið „Freefalling“ hefur fengið nokkra spilun og verið á vinsældalista Rásar 2 í sumar. Platan er að miklu leyti unnin í Tælandi þar sem Karlotta bjó í fyrra en hún hefur að mestu dvalið erlendis undanfarin sex ár. „Ég fór fyrst ein í heimsreisu og svo hætti hún eiginlega aldrei. Ég hef búið á Balí, Tælandi og Spáni,“ segir Karlotta sem fluttist heim fyrr á þessu ári. „Ég er komin heim í bili, þótt ég viti eiginlega aldrei hvert ég stefni.“
Síðasta ár reyndi á Karlottu, hún fékk veirusýkingu sem illa gekk að greina og lenti síðan í tveimur mótorhjólaslysum þar sem hún fótbrotnaði illa því seinna. Af þeim sökum var hún rúmliggjandi um helminginn á síðasta ári en nýtti það í tónlistina. „Ég átti mjög átakanlegt ár í fyrra sem að gaf mér fullt andrými til þess að semja og skapa nýja tónlist.
Ég tók plötuna upp með Bjarka Ómars eða Bómars í gegnum Facetime. Ég tók sönginn upp inni í herbergi. Í Tælandi eru loftkælingar út um allt þannig áður en ég tók upp þurfti ég að kæla herbergið vel niður og slökkva svo á loftkælingunni þannig suðið í henni truflaði ekki. Síðan gat ég unnið þar til varð of heitt aftur. Tímamunurinn var samt það erfiðasta í þessu samstarfi þótt það væri mjög kúl að geta unnið svona í gegnum netið.“
Nýtt lag og myndband bætast við hjá Karlottu í ágúst sem fylgir þá plötunni eftir með fleiri tónleikum. Tveir Austfirðingar eru í hljómsveitinni með henni, Kristófer Nökkvi Sigurðsson trommuleikari og föðurbróðir hennar, Óli Rúnar Jónsson gítarleikari en tónlistin er rík í ættinni. „Fólk spyr hvar ég hafði lært að syngja og spyr á móti eins og það sé eðlilegasti hlutur hvort það hafi ekki allir sungið síðan þeir fæddust.“