„Viljum bregðast hratt við og vera til staðar fyrir samfélagið“
Tryggingafélagið Vörður hefur opnað þjónustuskrifstofu fyrir Austfirðinga í útibúi Arion banka, Miðvangi 6, á Egilsstöðum. Þórunni Ingu Ingjaldsdóttur, framkvæmdastjóri sölu-og þjónustu hjá Verði segist hlakka til að byggja upp sterkt samband við fólkið á svæðinu.„Amma mín er fædd og uppalin að Mýrum í Skriðdal svo að svæðið skipar sérstakan sess í hjarta mínu. Þetta er landshluti sem er fullur af orkuríku fólki, kröftugum fyrirtækjum og alls kyns spennandi tækifærum. Það verður því skemmtilegt að færa okkur nær Austfirðingum og bjóða þannig upp á enn betri þjónustu.“
Þórunn gekk til liðs við Vörð í október 2023 og kemur því fersk inn í tryggingabransann. Þar á undan hafði hún m.a. verið í sölu og markaðsmálum fyrir Nike, starfað sem framkvæmdastjóri fyrir Under Armour á Íslandi og hjá Samskipum.
Tryggingaferillinn hófst með eldgosi
Óhætt er að segja að fyrsti fundur Þórunnar í tryggingabransanum hafi verið eftirminnilegur en þá var nýbyrjað að gjósa á Reykjanesskaganum, skammt frá Grindavík. Þórunn kveðst hins vegar mjög ánægð með hvað Vörður sýndi strax mikla samúð í verki með stuðningi sínum við Grindvíkinga.
„Vörður gaf það snemma út að íbúar í Grindavík þyrftu ekki að borga iðgjöld á meðan á hamförunum stæði. Hin þrjú stóru tryggingafélögin fylgdu svo í kjölfarið. Þó þetta hafi ekki breytt öllu fyrir Grindvíkinga þá gerir margt smátt eitt stórt.“
Hún segir enn fremur að viðbragðssnerpa og kraftur sé eitthvað sem þau hjá Verði vilji vera þekkt fyrir. „Við viljum veita framúrskarandi þjónustu, hreyfa okkur hratt og skipta máli fyrir samfélagið. Maður finnur það alveg, þegar maður vinnur í tryggingafélagi, hversu mikilvægt það er að geta brugðist hratt við á svona krítískum tímum í lífi fólks. Og þá skiptir máli að vera til staðar og vera hluti af samfélaginu.“
„Við erum því ákaflega glöð yfir að opna nýja þjónustuskrifstofu í helsta þjónustukjarna Austurlands á Egilsstöðum. Nú geta íbúar í héraðinu sótt persónulega ráðgjöf og þjónustu í öllu sem snýr að tryggingum hjá Varðarfólki á staðnum og um leið nýtt ferðina til að sinna fjármálunum hjá Arion.“
Sólríkasta útibú Varðar
Í útibúi Varðar verða tveir starfsmenn; Maron Brynjar Árnason, þjónustufulltrúi einstaklingstrygginga; og Arnar Jón Óskarsson sem sérhæfir sig í tryggingum fyrirtækja. Arnar Jón hefur búið lengst af á Héraði og þekkir svæðið vel. Þá hefur hann áralanga reynslu af því að starfa í tryggingabransanum.
„Við hlökkum því mikið til að taka á móti Austfirðingum“, segir Þórunn glaðvær að lokum en bætir svo að þetta sé klárlega sólríkasti staðurinn sem Vörður hefur opnað þjónustuskrifstofu á til þessa.