Skip to main content

Vopnfirðingar fóru í fjórðungsúrslit

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. des 2022 13:06Uppfært 06. des 2022 13:09

Lego-lið Vopnafjarðarskóla, Dodici, fór í fjórðungsúrslit Norðurlandamóts í Lego-þrautum sem haldið var í Osló um helgina.


Árangur Vopnafjarðarliðsins er eftirtektarverður í ljósi þess að alls tóku 49 lið þátt. Hin liðin komu frá Noregi og Svíþjóð. Dodici vann sér þátttökurétt með sigri í Íslandskeppninni annað árið í röð.

Keppnisfyrirkomulagið úti var svipað og í landskeppninni. Liðið kynnti hugmyndir sínar að orkulausnum í heimabyggð, sem fólust í vélrænu loftræstikerfi, gólfmottum sem framleiða rafmagn og hjólum undir skólaborðum, fyrir dómnefnd.

Hápunkturinn var sem fyrr lausn á þrautabraut með vélmenni gerðu með kubbum og tækni frá Lego. Gefin voru stig fyrir annars vegar frammistöðu vélmennisins, hins vegar hugsunina að baki forrituninni. Loks voru veitt verðlaun fyrir liðsheild.

Keppnin var haldin í höfuðstöðvum Equinor, orkufyrirtækis norska ríkisins sem varð til þegar Statoil var sameinað olíu- og gasdeild Norsk Hydro. Sigurvegarinn var liðið RoadSnack frá Norður-Troms.

Mynd: Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson