Haldinn verður fundur um ferða- og menningarmál á Reyðarfirði síðdegis á morgun, klukkan 17.
Fundurinn verður í kaffihúsinu Hjá Marlín. Meðal þess sem ræða á er staða ferða- og menningarmála á Reyðarfirði, aðgerðir fyrir sumarið 2009, Hernámsdagurinn og tækifæri Reyðarfjarðar. Áhugasamir eru hvattir til að mæta í skemmtilegar umræður.
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, lýsti því yfir á kjördæmisþingi Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Mývatnssveit um helgina, að húngæfi ekki kost á sér á framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar í vor. Hyggst hún þar með hverfa af vettvangi stjórnmálanna.
Lið Fljótsdalshéraðs hafði betur í Útsvari Sjónvarps í kvöld og er því komið í fjögurra liða úrslit. Þau Þorsteinn Bergsson, Stefán Bogi Sveinsson og Margrét Urður Snædal öttu kappi við lið Akureyringa og unnu með 86 gegn 83 stigum norðanmanna. Oft var mjótt á munum og sló úr og í með gengi Fljótsdalshéraðs í spurningakeppninni. Þau lönduðu þó sigri á lokasprettingum. Auk þess að vera komin í fjögurra liða úrslitin eru Héraðsbúarnir stigahæstir og einnig næst stigahæstir keppenda á vetrinum.
„Það er að mínu mati ekki lýðræðislegt að gefa ekki kjósendum fullan rétt til að kjósa þá sem þeir vilja í tiltekin sæti,“ segir Ragnar Thorarensen, samfylkingarmaður. Hann er hættur við að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, en hafði gefið kost á sér í 3. sætið hjá Samfylkingunni í NA-kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
Tillaga um að tvö efstu sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi yrðu skipuð konu og karli var felld á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar um helgina.
Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson skipa nú 1. og 2. sætið. Sigmundur Ernir Rúnarsson sækist eftir öðru sæti í kjördæminu. Þeir greiddu allir atkvæði gegn tillögunni. Konur yfirgáfu fundinn um stund en mættu aftur síðar þegar fram var komin tillaga um að hvort kyn mætti ekki skipa nema tvö sæti í röð á listanum. Hún var samþykkt, sem og tillaga um opið prófkjör.
Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmihafa ákveðið að kosið verði um 1. til 8. sæti á framboðslista flokksins á kjördæmisþingi sem haldið verður 15. mars. Atkvæðisrétt á því þingi munu allir flokksbundnir framsóknarmenn í kjördæminu hafa, í stað þess að valdir séu fulltrúar miðað við tiltekinn félagsmannafjölda hvers aðildarfélags, líkt og gerist á reglulegum kjördæmisþingum.
Soffía Lárusdóttir, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar í vor. Soffía er forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi.