Hreppsnefnd Borgarfjarðar eystra mótmælir því eindregið að að yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur ákveðið að leggja af skipulagðar ferðir lækna á Borgarfjörð. Tók ákvörðunin gildi nú um síðustu mánaðarmót. Hreppsnefndin segir í bókun að dregnar séu í efa þær röksemdir sem færðar eru fyrir ákvörðuninni og verði óskað eftir fundi með yfirstjórn HSA vegna þessa. Áfram verður sinnt vitjunum á Borgarfjörð frá HSA Egilsstöðum.
Í gær, þriðjudaginn 3. febrúar, átti sér stað sögulegur atburður í Hallormsstaðarskógi en þá felldi starfsfólk Skógræktar ríkisins 22 metra háa alaskaösp. Um er að ræða hæsta tré sem fellt hefur verið á Íslandi. Viðurinn verður nýttur í smíði gufubaðs við Mógilsá.
Í dag, mánudaginn 2. febrúar, munu Vatnavinir halda kynningu í ráðstefnusal Nýheima á Höfn klukkan 10:30. Þar mun hópurinn kynna hugmyndir sínar um nýtingu á auðlindinni vatn. Þá verða einnig kynntar hugmyndir sem unnið hefur verið að með ferðaþjónustuaðilum í Hoffelli.
Ert þú listamaður eða vinnur þú á annan hátt að menningu og listum?
Viltu fá alþjóðlegan vinkil á verkefnin þín?
Viltu mynda ný tengsl?
Ertu með áhugavert verkefni? Ef þú svarar þessum spurningum játandi mun menningaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar líklega vekja áhuga þinn. Því viljum við bjóða þér á kynningarfund Norrænu menningargáttarinnar í Norræna húsinu.
Kaupfélag Héraðsbúa berst nú fyrir tilveru sinni og er fjárhagsstaða fyrirtækisins mjög erfið. Gjaldþrot Malarvinnslunnar, dótturfélags KHB, virðist hafa gengið mjög nærri fyrirtækinu. Kaupfélagið var stofnað fyrir hundrað árum og starfa vel á annað hundruð manns hjá því. Það rekur verslanir á mörgum þéttbýlisstöðum á Austurlandi.
Meðal efnis í blaðinu þessa viku er, auk ýmissa frétta, umfjöllun um miðstöð fyrir atvinnulausa sem opnar í næstu viku á Fljótsdalshéraði og úttekt á starfsemi Atvinnuþróunarfélags Austurlands, þar sem margt kemur skemmtilega á óvart. Kristján L. Möller skrifar um nauðsyn nánara samráðs við sveitarfélögin vegna efnahagsástandsins og Sævar Sigbjarnarsonar hugleiðir átök Ísraela og Palestínumanna. Sportið er á sínum stað og ekki má gleyma frétt af dugnaðarforkunum í félagi eldri borgara á Reyðarfirði. Líneik Anna Sævarsdóttir á Fáskrúðsfirði skrifar samfélagsspegil blaðsins að þessu sinni og matgæðingurinn er á sínum stað með lystilegar uppskriftir.
Austurglugginn fæst á öllum betri blaðsölustöðum á Austurlandi. Áskriftarsími er 477-1571.
Fjölmenningarsetrið á Austurlandi og Rauði kross Íslands á Austurlandi standa sameiginlega að stofnun Innflytjendateymis á Austurlandi fimmtudaginn 5. febrúar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að koma á umræðuvettvangi um stöðu innflytjenda á Austurlandi.