Stjórn Vísindagarðsins ehf. á Egilsstöðum hefur ráðið Pétur Bjarnason í stöðu framkvæmdastjóra. Hann hóf störf 1. janúar og tekur við af Ívari Jónssyni, sem verið hefur framkvæmdastjóri Vísindagarðsins frá 15. júní 2007.
Meðal efnis í blaðinu eru viðtöl við Stöðfirðinginn Svövu Magnúsdóttur um einkar forvitnilegt borðspil sem snýst um helstu trúarbrögð veraldar, Sonju Björk Jóhannsdóttur, íþróttamann Hattar árið 2008 og Garðar Bachmann Þórðarson kvikmyndagerðarmann á Seyðisfirði. Fjallað er um áhugaverð tækifæri í atvinnusköpun fyrir fólk í dreifbýli, búsifjar bænda í Jökulsárhlíð vegna garnaveiki og helstu fréttir. Að auki eru birtar aðsendar greinar sem fjalla um allt frá erfiðu hlutskipti fyrirtækja í fjórðungnum til opnunartíma bókasafnsins í Neskaupstað. Forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar skrifar um byggðaáætlun fram til 2013 og forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga fjallar um mikilvægi staðbundinna fjölmiðla.
Austurglugginn fæst á öllum betri blaðsölustöðum á Austurlandi. Áskriftarsími er 477-1571.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi og varaformaður samgöngunefndar Alþingis, hét því á almennum stjórnmálafundi í Neskaupstað í vikunni að fylgja því fast á eftir á þingi að Norðfjarðargöngum yrði ekki frestað frekar en orðið er. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sagði við sama tækifæri að settur yrði lögreglustjóri á Austurlandi og skilið á milli valds sýslumanna og lögreglustjóra og sýslumanna og tollgæslunnar.
Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði á almennum stjórnmálafundi á Djúpavogi í gærkvöld að ekki hefði verið ákveðið endanlega hvernig samgönguframkvæmdum verður forgangsraðað, en þær myndu allar frestast eitthvað. Ráðuneytið veit ekki enn hvað það mun hafa úr að spila á næstu tveimur til þremur árum og það mun ekki skýrast fyrr en líða tekur á þetta ár.
Knattspyrnumaðurinn Sveinbjörn Jónasson er genginn til liðs við
úrvalsdeildarlið Grindavíkur. Sveinbjörn, sem er á 23ja aldursári,
gerði þriggja ára samning við Grindavík.
Útgerðir leita nú nýrra leiða í afla þar sem útlitið á loðnu er ekki beisið og bróðurpartur síldar sem veiðist ekki hæfur til manneldis. Auk Hugins VE, sem verið hefur við tilraunaveiðar á laxsíld, er Birtingur á leið í leit að henni og Loðnuvinnslan að gera skip og veiðarfæri klár í hið sama.