Halda tónleika um áhrif íslenskrar náttúru á tónskáld
Sópransöngkonan Rannveig Káradóttir og pínaóleikarinn Birna Hallgrímsdóttir halda tónleika í Egilsstaðakirkju í kvöld. Áherslan er á lög sem tengjast íslenskri náttúru en markmiðið er að sýna áhrif íslenskrar náttúru á tónskáld og textahöfunda.
„Við leiðum gestina í gegnum tónleikana á annan hátt en venjulega. Við reynum að sjá hvernig íslensk náttúrua hefur haft áhrif á tónskáld og ljóðskáld og hvernig hún kemur fram í þeirra list,“ segir Rannveig.
Á efnisskránni eru lög eins og Karl sat undir kletti eftir Jórunni Viðar og Únglíngurinn í skóginum sem Jórunn samdi einnig en textinn er eftir Halldór Laxness. „Við hittum hana um daginn og hún er yndisleg,“ segir Rannveig.
Þær taka einnig minna þekkt lög. Meðal þeirra er lag eftir Árna Björnsson við ljóð Huldu, Hver á sér fegra föðurland. „Ég gróf upp það lag. Við tökum lög eftir höfunda sem allir þekkja en hafa ekki endilega heyrt lögin sem við erum með.“
Tónleikarnir hefjast í Egilsstaðakirkju klukkan 20:30 í kvöld og aðgangseyrir er 1.500. Til að ljá lögunum frekari dýpt verður kirkjan skreytt með myndum úr íslenskri náttúru sem Michaël Plankar, eiginmaður Rannveigar tók.