Eysteinn: Leiðinlegt að geta ekki boðið þeim sem borguðu sig inn upp á meira

Eysteinn HaukssonHljóðið var þungt í Eysteini Haukssyni, þjálfara Hattar eftir 1-2 tap gegn nýliðum Ægis úr Þorlákshöfn í fyrstu umferð annarrar deildar karla í knattspyrnu í gær. Hann segist þó sannfærður um að liðið komist á rétta braut.

Mörk gestanna komu sitt hvorum megin við leikhléið en Högni Helgason lagaði stöðuna fyrir Hött í uppbótartíma. Leikurinn var samt fremur bragðdaufur.

Frammistaða Hattarmanna olli mörgum vonbrigðum enda féll liðið niður í deildina síðasta haust á meðan Ægismenn komu upp í hana. „Frammistaðan var slæm og leiðinlegt að geta ekki boðið þeim sem borguðu sig inn, upp á meira,“ sagði Eysteinn.

„Það hefði samt alls ekki þurft flókna hluti til að við hefðum haldið hreinu og mesta svekkelsið tengist því.“

Töluverðar mannabreytingar hafa orðið í vetur. Stefán Þór Eyjólfsson, Bjartmar Þorri Hafliðason og Þórarinn Máni Borgþórsson eru hættir og Óttar Steinn Magnússon og Ragnar Pétursson farnir í Víking og ÍBV.

Lánsmennirnir Veljko Bajkovic og Davíð Einarsson eru farnir til síns heima og Elvar Ægisson meiddist í æfingaleik viku fyrir mót. Í vikunni komu hins vegar tveir erlendir leikmenn, miðjumaðurinn Jonathan Taylor og markvörðurinn Scott Goodwin.

„Miðað við hvernig veturinn og sérstaklega undanfarnar vikur hafa verið, er þó alls ekkert óeðlilegt að það taki tíma að slípa liðið saman. Við erum með mikilvæga menn í meiðslum og ekki sjálfsagt að nýir menn komi inn og skili sama hlutverki eins og ekkert sé. Ég hef fulla trú á liðinu en það er ljóst að það verður að bretta upp ermarnar í framhaldinu.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.