Hótuðu að vera ekki með ef keppt yrði í Neskaupstað
Formenn fimm blakdeilda á höfuðborgarsvæðinu sendu stjórn Blaksambands Íslands nýverið bréf þar sem þau hótuðu að draga lið sín úr keppni ef leikið yrði í Neskaupstað. Sambandið hafnaði erindinu og verður því leikið í Neskaupstað.Í bréfi frá formönnum blakdeilda HK, Stjörnunnar, Fylkis, Aftureldingar og Þróttar Reykjavíkur, sem Austurfrétt hefur undir höndum, segir að tilgangur þess sé að mótmæla ákvörðun stjórnar Blaksambandsins um að halda forkeppni bikarkeppninnar í Neskaupstað.
Þau segja „bágan fjárhag" ástæðuna og leggja sameiginlega til að mótið verði frekar haldið á „stór Reykjavíkursvæðinu." Á móti bjóðast þau til að greiða 110-130 þúsund krónur á lið í ferðasjóð fyrir ferðir Þróttar í keppninni.
Þá velta þeir uppi möguleikum á auglýsingasölu á keppnina sem aukist með útsendingum SportTV verði keppnin haldin syðra.
Í niðurlagi bréfsins lýsa formennirnir því að þeir séu sammála um að „draga lið sín úr keppni" endurskoði stjórn Blaksambandsins ekki ákvörðun sína. B-lið Aftureldingar skráði sig til leiks í keppninni með fyrirvara um staðsetningu hennar.
Stjórn Blaksambandsins féllst ekki á tillöguna og stóð við ákvörðun sína um að spila í Neskaupstað. Hún lagðist hins vegar ekki gegn því að tillaga félaganna fimm yrði unnin frekar ef öll félögin sem skráð hafa lið til leiks kæmu að því.
Forsvarsmenn Þróttar féllust ekki á tillöguna og þar með var ekki rætt við KA. Því verður leikið í bikarkeppninni 21. – 23. nóvember í Neskaupstað. Fylkir hefur dregið lið sín úr keppni og í gær var staðfest að kvennalið Þróttar myndi heldur ekki mæta.
Bikarkeppnin hefur undanfarin ár verið leikin með því sniði að spilaðar eru tvær forkeppnir og loks úrslitakeppni í Reykjavík. Kvennalið Þróttar hefur verið fastagestur í henni undanfarin ár og karlaliðið komst einnig í hana á síðustu leiktíð..
Bestu liðin úr fyrstu forkeppninni hafa komist beint í úrslitakeppnina en hin liðin spilað um laus sæti í úrslitakeppninni í seinni forkeppninni. Að þessu sinni verður bara ein forkeppni haldin vegna dræmrar þátttöku.
Undanfarin ár hefur forkeppni verið haldin í Neskaupstað á tveggja ára fresti. Kostnaður Þróttar af þátttöku í keppninni í fyrra um 1,3 milljón króna en þá var leikið á Álftanesi, Akureyri og loks í Reykjavík.