
Körfubolti: Ráðlaus sóknarleikur Hattar gegn sterkri vörn Hauka – Myndir
Höttur er í neðsta sæti úrvalsdeildar karla í körfuknattleik án stiga þegar Íslandsmótið er hálfnað. Liðið tapaði illa fyrir Haukum 66-88 á heimavelli í gærkvöldi.
Haukar spiluðu magnaða vörn og hinn ungi Kári Jónsson skoraði 29 stig.
Haukar tóku ákvörðun um það fyrir leik að rifta samningi sínum við Bandaríkjamanninn Stephen Madison og komu því austur án stórs framherja. Sóknarleikur beggja liða þeir fór seint í gang en staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-16.
Hins vegar sáust fyrirboðar um hvað verða vildi. Haukar fengu skotfæri en hittu ekki. Hinu megin stífdekkaði Emil Barja Tobin Carberry og aðrir leikmenn Hattar hittu ekki úr sínum skotum eða virtust ragir við að skjóta.
Leikurinn kláraðist um leið og Haukar fóru að hitta. Í öðrum leikhluta skoruðu þeir 33 stig, þar af komu tíu frá Kára í röð. Tæpar fimm mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar Hattarmenn komust á blað en á sama tíma skoruðu Haukar sautján stig.
Þá urðu Haukar fyrir áfalli því miðherjinn Finnur Atli Marinósson snéri sig á hné í vörninni og spilaði ekki meir. Hattarmenn minnkuðu þó ekki muninn fyrir leikhlé þegar sem staðan var 26-47. Varnarleikurinn var grunnurinn að öðru og má nefna að Carberry skoraði ekki stig í leikhlutanum.
Í fjarveru Finns spilaði Guðni Heiðvar Valentínusson í miðherjanum. Hann fékk sína fjórðu villu eftir þriggja mínútna leik í þriðja leikhluta og var hvíldur í fjórar mínútur í kjölfarið. Sá kafli gaf Hattarmönnum tækifæri til að reyna að vinna sig aftur inn í leikinn.
Þeir söxuðu á forskotið og þótt Guðni kæmi aftur til leiks var munurinn eftir rúmar þriggja mínútna leik í fjórða leikhluta kominn niður í níu stig, 56-65. Haukar tóku fljótlega leikhlé, vörnin small aftur saman og tveimur mínútum síðar var staðan orðin 58-76. Þar með var leikurinn búinn.
Haukar spiluðu frábæra vörn og um leið og skotin fóru í körfuna í öðrum leikhluta efldist liðsheildin. Í seinni hálfleik áttu þeir sirkuskörfur og troðslur og skemmtu sér sem þeir væru á æfingu.
Enga slíka gleði var að finna í Hattarliðinu. Sóknarleikurinn var hægur frá byrjun en svo hreint ráðalaus. Vörnin var ekki skárri og menn þar jafnan einir á báti.