Körfubolti: David Ramos í þriggja leikja bann

David Guardia Ramos, leikmaður körfuknattleiksliðs Hattar, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir að hafa sparkað í leikmann Vals í leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts karla síðasta fimmtudagskvöld.

Leikmennirnir lentu í rimmu um miðjan annan leikhluta. Frank Booker, leikmaður Vals, sló til Davids í baráttu um frákast. David féll í gólfið en þar sem hann lá á bakinu sparkaði hann í áttina að Frank og hitti í klof hans. Samkvæmt leikskýrslu fékk Frank villu fyrir sinn gjörning en David var umsvifalaust vísað úr húsinu.

Aga- og úrskurðarnefnd tók málið til meðferðar í gær. Samkvæmt tilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands byggir aganefndin ákvörðun sína á d-lið 13. greinar reglugerðar sambandsins um agamál.

Þar segir að hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks skuli dæma viðkomandi í að minnsta kosti þriggja leikja bann. Víðtækari heimildir eru til staðar hafi atlagan alvarlegri afleiðingar.

Þetta þýðir að David missir af fjórða leik Hattar og Vals sem leikinn verður í íþróttahúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Þar sem Valur hefur unnið tvo leiki gegn einum þarf Höttur á sigri að halda til að knýja fram oddaleik, sem yrði spilaður í Valsheimilinu á fimmtudagskvöld. David verður einnig í banni þar ef liðsfélagar hans vinna í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.