Hvernig ert þú að nýta Valaskjálf?
Í sumar fór ég á 25 ára afmælistónleika Jasshátíðar Egilsstaða sem haldnir voru í Valaskjálf 26. og 27. júní, einn örfárra viðburða sem þar hefur verið boðið uppá í sumar og haust. Þetta er jasshátíð sem Árni Ísleifsson gerði að veruleika og var alltaf haldin í Valaskjálf meðan hann sá um hana, þó víðar væri leikinn jass á svæðinu þá daga sem hátíðin stóð. Síðan Jón Hilmar og félagar tóku við keflinu af Árna, hafa tónlistarviðburðirnir verið víðar um Austurland, en alltaf hafa þó eitt eða tvö kvöld verið fastsett í Valaskjálf.Fyrra kvöldið voru það MoR og Coney Island Babies sem spiluðu. Að sönnu var þar ekki mikill jass á ferðinni, en skemmtilegir tónleikar engu að síður. Það sem vakti þó meiri athygli mína var aðsóknin, en þeir 18 gestir sem keyptu sig inn samanstóðu að meirihluta af ferðamönnum sem höfðu slæðst þarna inn og sáu vonandi ekki eftir því.
Mér þótti sem heimamenn sýndu 25 ára gamalli hátíð Árna (nb. elstu jasshátíð á Íslandi) lítinn áhuga og virðingu, jafnvel þó búið sé að breikka tónlistarsviðið verulega eins og margir kölluðu eftir á árum áður.
Sáttur við tónleika föstudagsins, dreif ég mig líka á laugardagskvöldið og mætti heldur fyrr til að fá örugglega sæti. Það reyndist þó óþarfa fyrirhöfn, því í þann mund sem talið var í fjórða lagið gekk 18. gesturinn í salinn og fleiri mættu ekki í Valaskjálf það kvöld. Meðan ég beið eftir að tónleikarnir byrjuðu fór ég að velta fyrir mér hlutverki Valaskjálfar og þörfinni fyrir slíkt félagsheimili í dag.
Þarna sat ég ásamt 5 öðrum Héraðsbúum, sem allir voru komnir á sjötugssaldurinn og nokkrum íslenskum og erlendum ferðamönnum. Hvar voru nú þeir sem mest börðust fyrir því að sveitarfélagið leigði félagsheimilishluta Valaskjálfar á sínum tíma, svo ungir sem aldnir gætu sótt þar menningarviðburði?
Ég er vissulega ekki nægilega duglegur að sækja slíka viðburði sjálfur, en í þau skipti sem ég hef mætt í Valaskjálf síðan umræddur leigusamningur var gerður, hefur ætíð verið prýðilega rúmt um mig þar. Þarna er verið að verja þó nokkru skattfé til menningarmála, svo það er eins gott að íbúar nýti sér aðstöðuna og sýni fram á þörfina fyrir þetta gamalgróna félagsheimili.
Er til dæmis heil brú í því að kvarta undan viðburða- og aðstöðuleysi, en mæta svo ekki þegar á reynir? Er ef til vill allt of mikið framboð á menningarviðburðum af ýmsu tagi? Það komu ýmsar spurningar upp í hugann þessi kvöld í sumar.
Vissulega mátu menn þörfina út frá eigin reynslu og upplifunum, beggja vegna sviðsbrúnar, þegar mest var þrýst á sveitarstjórnina að gera þennan leigusamning. Þetta var fólk sem eflaust upplifði leiksýningar fyrir fullu húsi, menningarvökur og 800–1000 manna dansleiki með Ingimar Eydal eða Stuðmönnum. Fólk sem á yngri árum fór á dansleiki til að dansa, hitta kunningjana og leita sér að lífsförunaut. Þá voru félagsheimili eins og Valaskjálf miðpunktur samskipta ungmenna og ball um hverja helgi álíka nauðsynlegt og hafragrauturinn í morgunmatinn.
Nú er bara öldin önnur. Ungmennin sækja í aðrar upplifanir og samskiptamátinn orðinn næsta tæknivæddur. Ef þú eyðir kvöldi með tíu manna hópi, er eins líklegt að 9 þeirra sitji hver með sinn snjallsíma, spjaldtölvu eða fartölvu og sé í næsta litlu beinu sambandi við viðstadda. Þessi eini sem reynir að halda uppi samræðum á þá líklega bara gamaldags síma eða hefur gleymt gleraugunum heima.
Hver var svo niðurstaða mín af þessum vangaveltum þarna í tómarúminu. Jú, hún var nokkurn vegin sú að Valaskjálf er allt of stór og dýr umgjörð fyrir rafræn samskipti unga fólksins okkar og þessir 5 virðulegu borgarar sem með mér biðu eftir jassinum, eiga hvort sem er allir greiðan aðgang að Hlymsdölum.
Ef þörfin fyrir félagsheimilið Valaskjálf er sú sem talin var, er alla vega kominn tími til að sýna það í verki, en breyta kúrsinum ella. Meti nú hver fyrir sig út frá eigin þátttöku.
P.s. Tónleikarnir á laugardagskvöldið voru bara fínir og örlítið jassskotnir á köflum, til heiðurs 25 ára afmælinu og Árna Ísleifssyni.