101 mætir 701

gunnarg_web.jpgRétt eins og ég tel mikilvægt að vera sáttur við stöðu sína hverju sinni finnst mér jafn mikilvægt að prófa að skipta annað slagið um umhverfi. Að fara eitthvað, sjá hvernig aðrir lifa – þó ekki væri nema að lesa um hvernig aðrir hafa það. Þetta er ekki síst mikilvægt því maður er svo fljótur að verða samdauna sínu umhverfi. Það getur leitt til stöðnunar og það þykir mér hættulegt.

 

Breytingarnar þurfa ekki að vera miklar. Að komast burt yfir helgi dugir mér oft. Vinur minn sagði mér í haust að helgi þýddi að ég væri í burtu frá Reykjavík á handahófskenndum stað. Ég sagði bull að valið á þeim væri handahófskennt.

Í ár fékk ég til dæmis að kynnast hvernig fjöllin umlykja Ísafjörð í janúarmyrkrinu, Hvammstanga þar sem enn er rekið alvöru kaupfélag með kjörbúð og sláturhúsi, Vík þar sem menn horfa til Kötlu á hverjum morgni og Noregi þar sem teknir eru vegtollar og skattar af öllu og allt er tvöfalt dýrara en hér.

Eins og fleiri námsmenn er ég í Reykjavík tæpa níu mánuði á ári. Komandi úr póstnúmeri 701 gerir maður sitt besta til að aðlagast lífinu í 101. Á fimmta vetri virðist það vera farið að takast, jafnvel einum of.

Tíu dögum fyrir jól fór ég í heimsókn til vinar míns í Borgarfirði. Ég gáði hvorki að veðri né færð áður en ég keyrði af stað. Ég fór í strigaskóm en góðri úlpu. Hefði ég verið að ferðast fyrir austan þá hefði ég athugað veður og færð og verið með skóflu, kaðal og fleiri föt í bílnum. Um leið og ég var kominn út fyrir Mosfellsbæinn fékk ég alvöru íslenskt kóf og það var meira að segja smá snjór á veginum.

Vestur í Vatnsmýri hafði ekki bærst hár á höfði.

Ég fékk vinkonu mína til að lesa greinina yfir fyrir birtingu. Meðal athugasemda hennar var: „hvað er kóf.“ Athugasemdin endurspeglar mismunandi aðstæður okkar – ég hefði aldrei hugsað til þess að nokkur Íslendingur skyldi ekki hugtakið kóf.

Ég viðurkenni að ég fæ stundum þá tilfinningu fyrstu dagana eftir að ég kem aftur í Egilsstaði, einkum þegar ég hef verið lengi í, að staðurinn sé frekar sveitalegur, lúðalegur. Þegar maður mætir bændunum í fjárhúsagallanum í Kaupfélaginu. Þegar maður nær ekki andanum þegar komið er út úr flugvélinni fyrir mykjulyktinni af túnunum hans nafna á Egilsstöðum.

Síðan aðlagast maður aðstæðunum. Fyrsta verkið mitt var að finna hlýrri föt í íbúðinni minni á Egilsstöðum. Svarti frakkinn fauk fyrir hlýja úlpu sem keypt var á lagersölu. Strigaskórnir fyrir fótabúnað sem líklegri var til að hjálpa mér við að vaða snjóinn eða haldast uppréttur í hálku.

Klæðnaður til að bíllausa kuldaskræfan kæmist áhyggjulaus ferða sinna innanbæjar.

Síðan fellur maður inn í rútínuna. Það er ekkert 10-11 á horninu opið allan sólarhringinn. Gangstéttir og götur eru ekki ruddar eða saltaðar á klukkutímafresti frá átta á morgnana til tólf á kvöldin.

Það er svo að veðrið skiptir okkur sem búum út á landi svo miklu meira máli heldur en þá sem búa í Reykjavík. Sennilega er nærtækara að útskýra staðsetningu höfuðborgarinnar út frá því tempraða loftslagi sem þar ríkir frekar en þjóðsögu um öndvegissúlur.

Ég var minntur á þetta þegar ég fór að lesa jólakveðjur bæjarstjóranna í Austurglugganum. Þær hljómuðu margar eins og gamlir annálar þar sem tíðarfarið var rakið mánuð fyrir mánuð og helstu aflabrögð.

Og enn frekar var ég minntur á þetta þegar ég kom heim. Vindurinn stóð beint upp á svefnherbergisgluggann minn þegar ég ætlaði að fara að sofa fyrstu nóttina. Kófið barði rúðuna og það hvein í þakskegginu.

Bróðir minn lék jólasveininn á Þorláksmessu, fór í kuldagallann og fékk stóra jeppann í leiðangur út í sveit til að sækja og fara með pakka og kort. Á aðfangadag byrjaði norðvestan stormur um leið og við komum inn úr fjárhúsunum. Það var samt ekkert miðað við á fjörðunum þar sem rafmagnið fór yfir jólasteikinni.

Þrátt fyrir að við séum ekki nema 300.000 hræður á blautu, köldu skeri þá erum við býsna ólík og aðstæður okkar eru það líka. Við höfum öll hollt af að rifja það upp annað slagið.

Ég fer ekki fram á að þið troðið ykkur í næsta fjárhús, eins og Stekkjastaur og reynið að hjálpa hinu eða þessu. Ég hvet ykkur hins vegar til þess að horfa reglulega eftir því hvernig aðrir lifa. Að skilja aðstæðurnar. Finna einhverja aðra skó en þína til þess að máta þig í á þeim tímamótum sem áramót boða? Þó ég geti ekki lofað því get ég næstum því sagt með sanni að það muni gera þér gott.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.