Virðum lýðræði og styðjum hvort annað - þannig eflum við Austurland

Það er þekkt aðferð að draga úr trúverðugleika þeirra sem berjast gegn yfirgangi og ofríki sterkra fjármagnsafla að benda á hversu öfgafullir andmælendurnir séu. Eins er þekkt taktík að gera lítið úr þeim gögnum sem lögð eru fram. Klifað á að andstæðingarnir séu ekki marktækir en gera þó ekki tilraun til þess að sýna fram á neitt máli sínu til stuðnings. Á venjulegri íslensku kallast þetta dylgjur.

Í ljósi þessa langar mig til að skýra stuttlega fyrirbærið tölfræðilega marktækar niðurstöður og minna jafnframt á að barátta Seyðfirðinga hefur ávallt verið málefnaleg, byggð á traustum opinberum gögnum auk afstöðu íbúa sem birtist í skoðanakönnun virts fyrirtækis.

Seyðfirðingar, sem mótmæla áformunum, hafa vitnað í niðurstöðu íbúakönnunar sem var gerð af Gallup fyrir Múlaþing en nú heyrist úr nokkrum áttum að niðurstöðurnar séu ekki marktækar. Frambjóðendur sem við höfum hitt í aðdraganda kosninga spyrjast fyrir um þetta þar sem þeir hafa fengið veður af þessum orðrómi og sömuleiðis hefur þetta verið rætt á samfélagsmiðlum.

Eftirfarandi er tekið úr tölvupósti frá Gallup þegar spurt var hvort niðurstöður íbúakönnunar með sérstöku tilliti til sér spurningar til Seyðfirðinga um viðhorf til áforma um sjókvíaeldi.

Svar frá Gallup var orðrétt á þessa leið: Gagnaöflun fór fram á tvennan hátt (sími og net) og í tveimur aðskildum könnunum, Austurlandsvagni og Sveitarfélagakönnun. Þess var gætt að enginn svarandi fengi aukaspurningarnar á báðum stöðum, ef hann lenti í báðum könnunum.

Vikmörk sýna að það má vel reiða sig á niðurstöðurnar frá Seyðisfirði


Til að útskýra vikmörk, þá þýðir þessi síðasta setning að ef tekið yrði annað jafnstórt úrtak á sama svæði myndi niðurstaðan vera i mesta lagi plús eða mínus sú tala og þannig yrðu þeir svarendur sem eru andvígir alltaf í miklum meirihluta. Niðurstöðurnar eru þannig tölfræðilega marktækar.

Þessu til frekari stuðnings þá birti Kayla-Marie Kulczycki meistararitgerð sína í ársbyrjun 2023, á sama tíma og umrædd könnun. Í meistaraverkefninu var m.a. skoðuð afstaða íbúa Seyðisfjarðar til áforma Kaldvíkur (áður Ice Fish Farm) um sjókvíaeldi í firðinum. Þetta var vettvangsrannsókn byggð á viðtölum og könnun. Niðurstöðurnar sýndu að rétt um 80% íbúa væru andvíg áformunum.

Meint atvinnuuppbygging á kostnað annarrar


Öll viljum við að samfélagið vaxi og dafni og í því skyni er atvinnuuppbygging auðvitað afar mikilvæg. Það er þó illskiljanlegt að sveitarfélagið Múlaþing styðji sjókvíaeldið þrátt fyrir þessa skýru niðurstöðu könnunar sem það stóð sjálft fyrir.

Það hefur orðið umfangsmikil atvinnuuppbygging í kringum skipakomur og sömuleiðis í Skálanesi þar sem byggst hefur upp fræða og þekkingarsetur á gamalli bújörð þar sem villt dýralíf og vistkerfið er grunnur starfseminnar. LungA skólinn hefur sett á laggirnar nýja námsbraut sem byggir á sjálfbærni og tengingu við náttúruna. Þetta talar til unga fólksins á Seyðisfirði. Þrjú ung pör hafa t.d. nýlega fest kaup á húsnæði á Seyðisfirði af því þar er kröftugt samfélag sem þau vilja tilheyra. Orðsporið sem Seyðisfjörður hefur skapað sér sem einn fegursti og eftirsóttasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi ár eftir ár hefur tekið langan tíma að byggja upp og það viljum við standa vörð um. Þetta sýnir allt að staðurinn er í uppbyggingu. Það þarf einfaldlega að styðja betur við, nóg er af hugmyndum og eins og kom berlega í ljós þegar skoðaðar voru innsendar hugmyndir um uppbyggingu á atvinnu eftir aurskriðurnar. Náttúran er auðlind og það má ekki fórna henni fyrir skammgóðan vermi sem auk þess grefur undan þeirri atvinnuuppbyggingu sem heimamenn hafa sjálfir staðið fyrir.

Stöndum saman og virðum ólíka sýn


Það er mikilvægt að við stöndum saman og fordæmum ekki ólikar hugmyndir og nálgun um framtíð mismunandi staða á Austurlandi. Það ber þvi ekki að túlka andmæli Seyðfirðinga sem einhvers konar pílu eða jafnvel árás á önnur samfélög sem hafa farið aðrar leiðir. Staðirnir mega og geta dafnað með ólíkum áherslum og atvinnuvegum. Það hlýtur að vera sátt um að virða skuli lýðræðislegan vilja heimafólks. Það hlýtur líka að vera eðlilegt að sveitarfélagið Múlaþing standi vörð um aðra starfsemi á Seyðisfirði og virði niðurstöðu íbúakosningar og taki ekki þátt í umræðu um að tala hana niður. Sveitarfélagið hefur ekki beina aðkomu að ákvörðuninni en sannarlega er Múlaþing mikilvæg rödd íbúa Seyðisfjarðar við ríkisvaldið sem tekur ákvörðunina að lokum. Óskandi væri að sveitastjórn Múlaþings nýtti þá rödd til að tala máli okkar Seyðfirðinga.

Höfundur er í VÁ – félagi um vernd fjarðar og skipar 14. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.