Er þetta örugg leið í skólann?

gudny hrund runarsdottirVið viljum öll að börnin okkar komist heil og höldnu í skólann. Ég get því miður ekki sagt að mér finnist barnið mitt vera öruggt á leið sinni í skólann. Gangbrautin milli leikskólans Lyngholts og Grunnskólans á Reyðarfirði er slysagildra!
Við leikskólann er bílastæði rétt við gangbrautina og bílarnir sem þar leggja bakka nánast yfir gangbrautina. Sumir foreldrar sem fara með börnin sín á leikskólann leggja jafnframt ólöglega við hliðina á bílastæðinu við göngustíg og bakka þá alveg yfir gangbrautina þar sem grunnskólabörnin ganga yfir götuna.

Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær það verður slys. Ég þori ekki að láta barnið mitt ganga eitt yfir þessa gangbraut því hún er stórhættuleg. Umferðargatan ein og sér er hættuleg og við kennum börnum okkar að nota gangbrautir. Í þessu tilfelli er stórhættulegt að nota gangbrautina útaf bílastæðinu og þeim foreldrum sem leggja ólöglega við hliðina á bílastæðinu.

Það er ámælisvert að þurfa á horfa upp á þetta dag eftir dag því börnin okkar eiga rétt á því að fá öruggustu göngustaðina yfir umferðargötur. Þessi leið er alls ekki örugg og ég spyr: Hversu lengi á að ógna öryggi barnanna okkar?

Ég krefst þess að þetta verði lagað sem allra fyrst því börnin eiga heimtingu á því að geta farið yfir gangbraut án þess að eiga í verulegri hættu á að bakkað sé yfir þau.

leikskoli rfj web gudny run

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar