Er trix að nota Netflix?
Undanfarin misseri hafa farið fram yfirborðskenndar umræður á net- og sjónvarpsmiðlum um lögmæti og jafnvel ágæti þess að sækja og skoða afþreyingarefni á netinu, sér í lagi á erlendri þjónustu er kallast Netflix, einnig heimasíðu sem kallast flix.is en ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um hana hér.Sjálfur hef ég ekki keypt þjónustu af Netflix enda ekki séð ástæðu til þess að nýta mér þjónustu þeirra þar sem þjónusta þeirra er hvort eð er ekki boði hér á landi. Öllu heldur, hún hefur ekki verið í boði á Íslandi þar til núna en Tal hefur tekið upp á því að bjóða upp á svokallað Lúxusnet þar sem fólk getur tengt sig við þjónustu Netflix sem annars væru ekki í boði undir almennri netþjónustu, slíkt væri að sjálfsögðu hægt með öðrum aðferðum en það er önnur og flóknari umræða.
Tal er ekki að finna upp hjólið, heldur eru þeir að veita almennum notendum aðgengi að því sem kallast á móðurmálinu proxy-service en slíkt gerir manni kleift að tengjast erlendu neti sem annars væri ekki aðgengilegt.
Með því er verið að láta netið þitt líta út fyrir að vera erlent net svo að t.d. netveita eins og Netflix „haldi" að það sé að dæla afþreyingarefni til viðskiptavina í eigin landi.
Ég vill þó taka það fram að þegar þessi orð eru skrifuð er merkt inni á heimasíðu Tals að þjónustu Lúxusnets sé óvirk sem stendur, hver sem ástæðan fyrir því kann að vera.
Lögmæti
Nú langar mig að setja mig í stellingar og ræða ýmislegt sem hefur komið fram um lögmæti Netflix á Íslandi í almennri umræðu. Maður hefur heyrt ýmsum gífuryrðum fleygt fram um að kaup á þjónustu Netflix séu með öllu ólöglegar.
Í fyrsta lagi vill ég taka fram að slíkt er að mínu mati röng túlkun á lögum, sérstaklega í ljósi þess að þjónustan er keypt löglega af Netflix. Netflix greiðir gjöld til hagsmunasamtaka, og framleiðenda, sem þýðir það að Netflix er fullkomlega löglegt fyrirtæki með fullkomlega löglegan rekstur, annars hefði það aldrei fengið starfsleyfi í þeim löndum sem það starfar ásamt því að hafa verið lögsótt í kaf.
Sumir hafa sagt að þetta sé í raun ekki barátta um höfundarétt heldur frekar verslunarfrelsi. Tilgreindir aðilar þykjast eiga Íslandsverslunina og vilja banna mönnum að versla við aðra en þá. Ég verð að taka undir þessa nálgun á málið því mér þykir ekki við hæfi að kalla þetta glæp þegar kvikmyndagerðarmenn eru í raun að fá greitt fyrir sína vinnu.
Hitt er þó annað mál að Netflix er ekki með leyfi hjá íslenskum hagsmunasamtökum til að starfa hérlendis og því er Netflix ekki staðsett með sitt fyrirtæki hérlendis. Fyrir vikið er Netflix ekki að borga skatta né gjöld til íslenska ríkisins og á þeim nótum er ég fyllilega sammála, enda er þjónusta sem maður verslar erlendis ekki að greiða nein gjöld til íslenska ríkisins né hagsmunasamtaka á Íslandi almennt.
Því hafa þessi sömu samtök fundið sig knúin til að sækja netveitur eins og Tal til saka fyrir að auðvelda notendum aðgengi að slíkri þjónustu erlendis - takið eftir erlendis.
Þetta kann að hljóma öfugsnúið en um það snýst málið, við erum að kaupa þjónustuna af Netflix erlendis en ekki hérlendis þótt við séum að njóta hennar hérlendis, allt í þökk þess að nýta sér proxy-þjónustur.
Kæruferli
Þrátt fyrir lögleg kaup á þjónustunni, að mínu mati, hafa hagsmunasamtökin SMÁÍS lýst því yfir að þau ætli að láta reyna á lögmæti þjónustunnar fyrir dómstólum. Kæran mun snúast um að brotið hafi verið á 50. gr. b höfundalaga nr. 73/1972, sem varðar sniðgöngu á tæknilegum ráðstöfunum.
Svo er spurning hvort þetta muni standast fyrir dómstólum þar sem lögin voru upphaflega ekki hugsuð til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði ef marka má orð þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, sem mælti fyrir frumvarpinu við umræður á Alþingi.
„Ákvæðum [innsk: 50. gr. b höfundalaga] frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana er m.ö.o. ekki ætlað að vernda ýmsar ráðstafanir útgefenda hljóð- og myndrita til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði."
Hvað svo?
Þegar öllu er á botninn hvolft, sama hvaða afstöðu menn taki til Netflix-málsins, þá finnst mér að menn þurfi að íhuga hvert mál af þessu tagi stefna í framtíðinni?
Ég er þeirrar skoðunar að internetið eigi að vera með öllu frjálst enda er það í eðli sínu frjálst. Að reyna að stjórna straumum internetsins með boðum og bönnum er að mínu mati óraunhæft. Þeir sem óttast breytingar af þessu tagi ættu heldur að fagna slíkum breytingum, þótt sársaukafullar séu, og beisla tæknina í sína þágu.
Við munum sjá þjónustur af þessu tagi koma og fara, við höfum t.a.m. séð þjónustu á borð við Spotify skjóta upp kollinum hér á landi. Sú þjónusta er að vísu samþykkt af íslenskum hagsmunasamtökum og því ekkert vandamál þar, en prinsippið stendur. Við munum einnig sjá þjónustur á borð við Hulu, iTunes og Amazon bætast við, svo dæmi séu nefnd.
Þessar þjónustur eiga flestar það sameiginlegt að vera ekki leyfðar innan íslenskra landamæra þrátt fyrir það að vera víða í notkun á Íslandi. Eðli og frjálsræði internetsins er því að þakka og finnst mér allar hugmyndir um boð og bönn eiga enga stoð í raunveruleikanum því það leysir engin vandamál en skapar bara önnur vandamál.
Skildi það vera tilviljun að t.d. í Noregi hafi niðurhal á ólöglegu efni hafa lækkað allt að 80% frá því árið 2008 á meðan löglegir valmöguleikar eins og Netflix hafa skotið upp kollinum þar?
Ef þjónustuaðilar internets á Íslandi munu verða fyrir því óláni að fá á sig lögbann við að veita aðgang að slíkum þjónustum, sem ég reyndar efast um, þá mun fólk einfaldlega ekki láta segjast og útvega sér aðgengi að erlendum proxy-þjónustum upp á eigin spýtur.
Prófaðu bara að gúggla „how to access proxy" og niðurstöðurnar munu ekki leyna sér, þ.e.a.s. ef þú nennir að lesa það. Einnig er auðveldlega hægt að setja upp litlar viðbætur á netvafrann þinn til að gera þessa hluti fyrir þig nú þegar. Þú getur farið inn á „Chrome Store" í Chrome-netvafra þínum eða inn á „Add-ons" í Firefox-vafranum þínum og leitað t.d. eftir leitarorðinu „Netflix" og þú færð margvíslegar leiðir til að tengjast Netflix á eigin forsendum, þ.e.a.s. þú þarft ekkert að kaupa slíka þjónustu beint af þínum þjónustuaðila hvort sem það er Síminn, Vodafone, Tal eða eitthvað annað.
Hafi þið séð mann pissa á móti vindi? Ég hef séð það, það er hrikalega fyndið en jafnframt tilgangslaust ætlunarverk. Ég fæ sömu skondnu tilfinningu þegar ég hugsa til þess að menn fari með rökleysu um að best sé að banna hitt og þetta á internetinu.
Fyrir mér er það eins og að banna einhverja tiltekna vegi vegna þess að margir bófar keyra oft um þessa tilteknu vegi.