Tökum gæði fram yfir magn

sigrun halla webÞað er til eitthvað sem heitir góð hönnun. Þegar um góða hönnun ræðir er oftar en ekki verið að leysa vandamál og finna nýjar spennandi leiðir. Þó svo að það hljómi klisjukennt og háfleygt þá á góð hönnun að bæta heiminn á einhvern hátt.

Ég er umhverfissinni. Það felst í því ákveðin togstreita að vera fatahönnuður og umhverfissinni. Fataiðnaðurinn er alveg agalegur, hann er svo sannarlega ekki að betrumbæta heiminn. Þvert á móti. Þetta er iðnaður sem að misnotar vinnuafl í fátækustu löndum heims til að fá ódýrar vörur hratt á markað. Offramleiðslan gengur á auðlindir jarðar til þess að bjóða neytendum vöru sem þeir "verða" að eignast. Þetta er vítahringur sem verður að stoppa. Í áskorunum felast tækifæri og það er svo sannarlega pláss fyrir bót í þessum efnum. En hver ber ábyrgðina ? Eru það neytendur eða hönnuðir og eigendur fyrirtækja ?

Ég er alin upp af nýtinni móðir og föður. Ég gekk í hönnunarskóla sem hafði sjálfbærni og vistvænan þankagang að leiðarljósi. Ég hef því í gegnum tíðina fengið góðar upplýsingar um mikilvægi vistvænna verkferla og lifnaðarhátta. Þrátt fyrir það er ég ekki saklaus neytandi. Ég fell í sama trans og aðrir þegar að „góð kaup" í H&M freista mín. Þetta snýst um samstíga breytingar í menningunni sem og vilja þeirra sem ráða, hönnuða og eigendur fyrirtækja, til þess að breyta rétt. Einhvern vegin er það ekkert svo flókið.

Það sem gerir þetta hins vegar flókið er að fyrirtækin vilja að sjálfsögðu halda áfram að græða jafn mikið og meira en áður. Svo eru það þau rök að með minni neyslu gröfum við undan hagkerfi þeirra þróunarríkja sem hafa helgað sig framleiðslu. Álíka gáfuleg rök í mínum huga eins og að segja að Austurland væri óbyggilegt í dag ef ekki hefði verið fyrir Kárahnjúkavirkjun. Það er nefnilega hið versta mál að ætla manninum að hann get ekki nýtt sér þá lífsorku og sköpunarkraft sem býr innra með honum.

Fyrsta skrefið er hjá okkur. Kæru neytendur, kaupum minna! Kaupum gæði fram yfir magn og nýtum það sem til er. Verum meðvituð um hvaðan varan kemur. Fyrirtækin munu alltaf elta markaðinn, og ef að markaðurinn kallar á nýjar leiðir til vistvænni framleiðslu og mannsæmandi vinnuskilyrða þá munu fyrirtækin hlusta.

Ég sem neytandi og fatahönnuður ætla að standa mig og um leið hvetja kollega mína til góðra gjörða.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.