Aðventuljóð trúleysingjans
Aðventukransinn er ein uppáhalds jólahefðin mín. Það er svo gaman að föndra kransinn, hafa afsökun til að baka eitthvað gúmmulaði fjóra sunnudaga í röð, kveikja á kertum og njóta samverustundar með fjölskyldunni. Þá er líka algjörlega nauðsynlegt að syngja aðventuljóðið „Við kveikjum einu kerti á". Með aldrinum og aukinni meðvitund um eigið trúleysi hefur textinn hins vegar staðið fastar og fastar í mér.En aðventuhefðinni vil ég ekki sleppa. Ég vil telja niður til jóla, til vetrarsólstöðuhátíðar, syngja um tilhlökkun, sigur ljóssins yfir myrkrinu, kærleika og frið. Til að viðhalda þessari hefð og fagna þessum gildum setti ég nýjan texta við lagið. Ég býð þeim sem það vilja að taka undir með mér og njóta aðventunnar. Gleðileg jól!
Við kveikjum einu kerti á
og kyrjum saman lag.
Ljósið blíða brátt mun ná
að breyta myrkri í dag.
Við kveikjum tveimur kertum á
og kyrrlát bíðum enn
þess kvölds er kætast börnin smá
nú koma jólin senn.
Við kveikjum þremur kertum á
nú kvöldið nálgast fljótt
er ljúfmennskan og ljósin smá
lýsa heila nótt.
Við kveikjum fjórum kertum á
og kvöldsins bíðum sátt
þá samhent ást og sólin há
sigra myrka nátt.