Atómskáld á Alþingi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sjálfur talað um upphaf sitt í pólitík. Hann hefur lýst því þegar haft var samband við hann austan af landi og hann beðinn að koma í heimsókn og ræða stöðuna í stjórnmálunum. Þegar þangað var komið beið eftir honum hópur af fólki og ræðustóll þar sem honum var sagt að fara upp og halda framboðsræðu til formanns í Framsóknarflokknum. Ég veit að þetta er satt. Ég var þarna.Einn á móti
Framsóknarflokkurinn var á þessum tíma í mikilli tilvistarkreppu og grasrótin skynjaði það raunar betur en þeir sem þá voru í forystu flokksins. En hvað var hægt að gera? Að aflokinni ræðu Sigmundar, þar sem hann raunar margítrekaði að hann ætlaði sér ekki að verða formaður Framsóknarflokksins, var orðið gefið laust. Það tóku til máls allmargir ágætir og þrautreyndir framsóknarmenn sem áttu það sameiginlegt að virðast hafa hlustað með athygli á þennan nýkomna gest, þ.e.a.s. allt nema það sem hann sagði um að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram. Strax þarna fékk hann heilmikinn stuðning.
Allir nema einn sem töluðu lögðu að honum að taka slaginn. Þessi eini var ég. Ég hélt að eigin áliti afar skynsamlega ræðu þar sem ég þakkaði fyrir góða ræðu og taldi þennan ágæta mann hafa ýmislegt til brunns að bera en að ætla manni sem fáir þekktu og hefði enga reynslu af stjórnmálum að taka forystu í stjórnmálaflokki væri algjörlega óraunhæft. Sýnir hvað ég veit.
Heppni og hugdirfska
Framsóknarflokkurinn sýndi ótrúlegan kjark á flokksþingi sínu árið 2009 þegar menn ákváðu að gera upp við fortíðina eins og enginn annar stjórnmálaflokkur hefur gert hér á landi. Síðan þá hefur Sigmundur Davíð sýnt ótvíræða leiðtogahæfileika og afrekað margt sem vart verður leikið eftir í bráð. Ég hef ekki alltaf verið ánægður með hann eða sammála honum. En það er erfitt að deila þegar árangurinn er eins og hann er. Ég var einhvern tíma að ræða það við gamlan og traustan flokksfélaga hvort maður ætti ekki bara að hætta í pólitík. Ég væri oftar en ekki ósammála formanninum og miðað við gengi flokksins væri ekki hægt að segja að ég ætti mikla innistæðu fyrir gagnrýni minni. Sá sagði við mig að það mætti ekki gleyma því að Sigmundur hefði til að bera þann eiginleika sem væri hvað mikilvægastur öllum leiðtogum. Hann er heppinn. Það er sannarlega mikið til í því. Hann er líka stöðugt vanmetinn af andstæðingum sínum. Og það er alltaf gott þegar andstæðingurinn vanmetur mann.
Ég vil hins vegar meina að heppnin sé ekki stærsti kostur Sigmundar sem stjórnmála leiðtoga. Hitt er miklu meira um vert að hann er óhræddur við að hugsa út fyrir kassann. Það virðast engin takmörk fyrir hugmyndaflugi hans og trú hans á að allt sé mögulegt. Það er ekki lítils virði fyrir þjóð í vanda að hafa slíkan mann í forystu. Ég hef reyndar þá trú að þetta sé ein af stóru ástæðunum fyrir því að hann virðist fara óendanlega í taugarnar á pólitískum andstæðingum sínum. Hann er eins og atómskáld í hópi bragfræðinga. Þeir sem eru skilgreindar afurðir hins pólitíska kerfis skilja ekki þennan mann. Og það er erfitt að tengjast manni sem maður skilur ekki.
Eitt lítið skref
Sigmundur Davíð hefur nú kynnt hugmyndir um almenna niðurfærslu húsnæðisskulda. Það hefur án efa verið sætt að gera það. Sérstaklega gagnvart þeim sem hafa haldið því fram að ýmist væri ekki hægt að framkvæma niðurfærsluna eða að það stæði ekki til í alvörunni. En Sigmundur hlýtur að vita að þetta var bara fyrsta skrefið og sennilega það auðveldasta. Það útheimti ekki einu sinni svo ýkja mikinn pólitískan kjark að framkvæma leiðréttinguna. Það hefði í það minnsta útheimt mun meiri pólitískan kjark að gera það ekki, miðað við það sem á undan er gengið.
En stærstu úrlausnarefnin standa eftir. Gjaldeyrishöft og verðtrygging. Hver á staða Íslands að vera innan hins alþjóðlega hagkerfis og hvernig komum við í veg fyrir annað eins hrun og annan eins forsendubrest í framtíðinni. Það er í sjálfu sér ekki flókið mál að afnema verðtrygginguna sem slíka, en það verður ekki gert af neinni skynsemi nema með því að takast á við þá undirliggjandi þætti sem hafa gert hana illnauðsynlega. Ég verð sífellt ákveðnar á þeirri skoðun að íslenska krónan sé ónýtur gjaldmiðill, og að eini raunhæfi valkostur okkar til framtíðar sé að binda trúss okkar með einum eða öðrum hætti við efnahagskerfi Evrópu og taka upp evruna.
Þannig sköpum við forsendur til að losna við verðtrygginguna fyrir fullt og allt. Ég veit að Sigmundur Davíð veit hvers lags skaðvaldur verðtryggingin er orðin í efnahagslífi Íslands og í lífi okkar allra. Hann sagði mér það nefnilega og ég hef engan heyrt útskýra það betur en hann. Nú þarf hann að losa okkur við hana. Ég útiloka ekki að á því sé hægt að finna aðra lausn en ég nefni hér að framan og ef það er hægt treysti ég engum betur til að finna hana en einmitt forsætisráðherra. En ef betri leið er ekki til, hefur hann þá þann pólitíska kjark sem þarf til að feta þá slóð? Það er stóra spurningin.
Réttlætismál í höfn
En í bili snýst umræðan um niðurfærslu húsnæðisskulda og það var svo sem ærið verkefni þó að annað og meira bíði. Um það hef ég þó a.m.k. alltaf verið sammála formanni mínum. Það þarf að bæta þeim sem skulduðu það tjón sem þeir urðu fyrir í hruninu. Það er sjálfsagt réttlætismál ekki aðeins, og raunar síst, vegna þeirra sem voru með gengislán og fengu ríflega niðurfellingu í gegnum dómstólakerfið. Nei, réttlætið snýr að þeim sem áttu peninga inni í bönkunum við hrunið.
Með einu pennastriki var milljörðum af fé almennings ráðstafað til að viðhalda stöðu á efnahagsreikningi þeirra sem áttu fé inni í bönkunum. Fé sem var tapað og horfið. Við borguðum þessa peninga með skattfé aftur inn á reikninga þessa fólks. Það var sennilega nauðsynleg aðgerð. En ef rétt var að ráðstafa peningum til þessa hóps getur ekki verið rangt að ráðstafa þeim til að leiðrétta efnahagsreikning þeirra sem skulduðu.
Og ef það er rangt að nota peninga úr ríkiskassanum til þess að færa niður skuldir einstaklinga, heldur eigi frekar að greiða niður skuldir ríkisins með fénu, hlýtur að sama skapi að eiga að ráðast í að sækja aftur allt það fé sem ríkið gaf innistæðueigendum og nota það til sama verkefnis. Það væri þó a.m.k. eitthvað jafnræði í því. En að eitt eigi að gilda um þá sem eiga og annað um þá sem skulda. Það væri óþolandi.