Hverju má kosta til að vera jákvæður?

gunnarg april1306„Í guðanna bænum verið jákvæð fyrir breytingunni frekar en endalaust neikvæð. Það gerir bara illt verra," voru lokaorð Gunnhildar Ingvarsdóttur, bæjarfulltrúa sem sæti átti í starfshópi sem skilaði nýverið skýrslu um framtíð Hallormsstaðarskóla. Fleiri fulltrúar úr sveitarstjórnum tóku í sama streng.

Tillögur hópsins voru kynntar á mánudag. Þær ganga út á sparnað. Rekstur skólans kostaði í fyrra yfir 100 milljónir króna sem þykir ekki verjandi miðað við um þrjátíu nemendur. Tillögurnar voru þrjár: að loka strax, að fækka um tvo bekki (í raun að loka) eða halda starfinu óbreyttu en skólinn yrði deild undir Egilsstaðaskóla. Sama dag funduðu sveitastjórnirnar um tillögurnar og að þeim fundi loknum var starfsmönnum tilkynnt um hvaða tillögu þær hefðu komið sér saman um. Tveimur dögum síðar voru bæjarfulltrúar búnir að staðfesta hvaða tillögu þeir ætluðu að vinna eftir.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að viðvörunarljósin hafa logað í kringum Hallormsstaðarskóla um árabil. Víða um landið hefur fámennari skólum verið lokað vegna fólksfækkunar og til að spara í rekstri sveitarfélaga. Eftir allt eru skólarnir oft útbólgnir útgjaldaliðir í rándýru og illa nýttu húsnæði og starfsmannakostnaður er vanalega stærsti útgjaldaliðurinn.

Í sveitarfélagi eins og Fljótsdalshéraði, sem hefur verið undir smásjá Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, en rekur samt fjóra grunnskóla telst það kannski afrek að hafa varið skólann þetta lengi.

Ég verð líka að gera grein fyrir hagsmunatengslum mínum. Ég var nemandi í skólanum í tíu ár, kenndi þar í tvö og hef unnið náið með núverandi skólastjóra, Elínu Rán Björnsdóttur, innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Þess vegna tel ég mig vita hvers hún er megnug. Mig langar að vita hversu mikið snúa mætti stöðunni við á 3-5 árum ef menn slökuðu aðeins á sparnaðarkröfunni og gæfu starfsfólki stuðning til að fylgja eftir þeirri stefnumörkun sem hafin er.

Ágætis byrjun

Undir lok síðasta skólaárs voru flestir búnir að sættast á að þáverandi ástand gengi ekki lengur. Starfshópur var því skipaður með fulltrúum sveitarfélögunum tveggja sem skipta með sér rekstri skólans, Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs.

Þetta eru ágæt fyrstu skref. Að allir viðurkenni vandamálið og farið sé yfir hvaða leiðir séu færar til að leysa það. Skýrslan er líka ágæt til að draga upp sviðsmyndina.

En hún er ekki heilög. Í fyrsta lagi er ég alltaf hræddur við skýrslur sem skrifaðar eru með það að markmiði að skera niður kostnað því mér finnst þeim hætta til að einblína á skyndilausnir frekar en framtíð.

Þar er eitt af vandamálunum í skýrslu starfshópsins. Í henni er engin framtíðarsýn. Einblínt er á rekstur skólans en lítil greining á kostnaðarliðum og engir útreikningar. Fyrir utanaðkomandi er þannig erfitt að rýna forsendur niðurstöðunnar.

Sem eru: Að tillögurnar feli í sér „verulega fjárhagslega hagræðingu fyrir sveitarfélögin."

Og það er þarna sem farið er út af sporinu.

Hafa menn ekkert lært?

Í fyrsta lagi er horft afar þröngt á kostnaðinn við skólann. Á fundinum í gær kom fram að kostnaðarliðir væru færðir á skólann sem ekki væru færðir á aðra skóla, eins og rekstur íþróttahúss. Í öðru lagi er ekki gerð nein tilraun til að meta kostnað samfélagsins af lokun skólans eða áhrif á aðra skóla utan hækkunar launa skólastjóra Egilsstaðaskóla. Það eru til aðferðir til að meta allt þetta en það hefði kostað hagfræðing í vinnu.

Í niðurstöðunum er ekkert talað um faglegan ávinning eða félagslegan ávinning fyrir börnin þótt ástæða þyki til að bæta úr hvoru tveggja á Hallormsstað. Samningur er um skólann til ársins 2019 en hæpið er að sjá sýn í greinargerðinni sem nær mikið lengra en 31. maí 2014.

Breytingar eru vandmeðfarið verkefni. Menn eru á móti þeim af ýmsum ástæðum. Menn fyllast óöryggi um framtíðina, aðrir eru með persónulega hagmuni undir og enn aðrir eru einfaldlega á móti öllum breytingum. Sérfræðingar í breytingastjórnun benda á að nær alltaf sé kostnaður við breytingarnar vanmetinn og þeir benda einnig á að 70% breytinga (niðurskurðir, sameiningar o.s.frv.) mislukkist, oft því rangt sé að þeim staðið.

Þess vegna skiptir rétt ferli gríðarlegu máli. Einhver hefði haldið að í það minnsta forsvarsmenn Fljótsdalshéraðs hefðu lært það eftir að hafa misst allt í háaloft við sameiningu leikskólanna á Egilsstöðum.

En á vinnubrögðum síðustu viku er ekki að sjá að þeir hafi nokkuð lært.

Það að lesa eina bók um breytingastjórnun hefði átt að hjálpa. Kotter eða Mintzberg. Það er meira að segja hægt að fá útdrátt úr þeim á netinu.

Skýrsluna hefði átt að opinbera um leið og hún var tilbúin. Síðan hefði átt að kalla eftir athugasemdum við hana, því sannarlega eru rangfærslur í henni, eins og um skiptingu nemenda. Síðan hefði verið hægt að taka ákvörðun í sveitarstjórnunum.

Sex blaðsíður á sex mánuðum

En ferlið var svona: Í vikunni eftir að skýrslan var fullkláruð funduðu sveitarstjórnirnar, sættust á eina tillöguna og tilkynntu starfsmönnum að sú leið yrði farin. Tveimur dögum síðar var ákvörðunin staðfest á bæjarstjórnarfundi í beinni og komin í fjölmiðla um leið.

Aðeins þrír bæjarfulltrúar ræddu málið á bæjarstjórnarfundi þar sem tillagan um að minnka skólann um tvo bekki var samþykkt samhljóða. Í Fljótsdal voru þó foreldrarnir sem eiga börn í skólanum kallaðir til fundar.

Á kosningavetri hefði kjörið fyrir minnihlutann að gera veður út af þessu máli. Það hefði að minnsta kosti kallað á alvöru umræður á milli kjörinna fulltrúa um tillögurnar. En svo sama virðist minnihlutanum í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs um málið að enginn fulltrúi hans var sjáanlegur á fundinum með foreldrum í gær.

Sýnið að ykkur er ekki sama. Talið á bæjarstjórnarfundum, mætið á fundi með fólkinu sem þið eruð að ákveða framtíðina fyrir.

Skýrsluhöfundar hafa varið skýrsluna með að tímapressa hafi verið á þeim. Þeir fengu hálft ár til að vinna skýrsluna. Það plagg sem nú liggur frammi er ekki burðugt miðað við þann tíma. Sex blaðsíður að lengd og tillagan sem á að vinna var upphaflega lögð fram í byrjun júní en ekki var hægt að framkvæmda hana strax í haust. Hinar tvær eru nokkurn vegin sjálfgefnar.

Að reyna að verja ófullkomnar niðurstöður og rangfærslur með því að tímapressa hafi myndast er ódýrt. Sérstaklega þegar svo mikið lá á að ekki var kallað eftir athugasemdum. Um er að ræða stóra ákvörðun sem hefur áhrif á líf og afkomu fjölda fólks. Það á heimtingu á að hlutirnir séu unnir almennilega.

Vissulega geta menn ekki gefið sér endalausan tíma til að þvæla málið. Óvissan hefur skemmt nóg nú þegar. Það þarf að taka ákvörðun. En mánuður í viðbót fyrir faglegt ferli og réttari niðurstöður hlýtur að vera þess virði þegar svona mikið er í húfi.

Það var alltaf vitað að engin ákvörðun yrði góð fyrir skólann. Við slíkar kringumstæður skiptir réttlátt og gagnsætt ferli máli til því fólk geta sætt sig við vonda niðurstöðu ef þeir viðurkenna að ákvarðanatökuferlið hafi verið sanngjarnt. En það hefur ekki verið það.

Jákvæðni fæst ekki með skipunum. Jákvæðni hefst með samvinnu, samræðum, erfiði og þolinmæði. Að segja fólki að vera jákvætt gagnvart ákvörðun sem það hefur eiginlega ekki haft nokkurn möguleika á að hafa aðkomu að gengur einfaldlega ekki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar