Úr Skriðdælu: Minnisverð ganga
Sunnudaginn 16. október 1913 var ákveðið að fara í göngu á afréttirnar. Mig minnir það vera þriðja ganga. Þennan dag var messað í Þingmúla og á eftir voru kirkjugestir að tala um að nú fengjum við gangnamenn gott veður en göngur höfðu mistekist áður um haustið vegna hinnar illræmdu Austfjarðaþoku. Gangnamenn söfnuðust saman á innstu bæjum áður en lagt var á stað í gangnakofann til gistingar og segi ég fyrst frá Múlamönnum.Þegar lagt var á stað frá Hátúnum var komið fram undir myrkur og vorum við sjö: Hrólfur Kristbjörnsson sem var gangnaforingi það haust, Björn Antoníusson frá Stóra-Sandfelli, Bjarni Jónsson frá Litla-Sandfelli, Einar Jónsson frá Múlastekk, Ferdinand Magnússon frá Borg, Guðjón Guðmundsson frá Þorvaldsstöðum en ég man ekki fyrir víst hver var frá Þingmúla en þó minnir mig fastlega það vera einn maður þaðan en ekki var það Óli sem þá bjó þar. Benedikt Eyjólfsson á Þorvaldsstöðum rak fé sitt alltaf á Múlann og lagði alltaf mann eða menn í göngur þangað.
Þegar við lögðum á stað var farið að þyngja í loft og þegar við komum inn í Bjarnarstaðaskóg setti dimmt él sem létti fljótlega upp og birti í loft. Við vorum allir ríðandi, heftum hestana okkar hjá kofanum og lögðumst svo fyrir til svefns. Ég vildi ekki líða áflog eða ærsl í kofanum fyrsta kvöldið sem við vorum þar meðan ég var gangnaforingi en lét það afskiptalaust og var jafnvel með þeim síðari kvöldið og var því kallaður gamli maðurinn af sumum.
Um miðja nótt vöknuðum við þungan veðurgný á kofaþekjunni og fórum við strax að huga að hestum okkar og fundum þá fljótlega og tíndum þá í skjól við kofann og bundum þá þar. Fórum svo að hita okkur kaffi og biðum svo til þess að sjá hvort ekki batnaði veðrið og var þá orðið bjart af degi. En nú sem við sitjum þarna og ræðum um hvað gera skyldi heyrðist einhverjum að hann heyra köll eða hó og var farið út. Þá var ekki hægt að segja að væri neitt stórviðri en norðaustan strekkingur með nokkurri snjókomu. Brátt komumst við að því að þessi köll voru frá gangnamönnum úr Geitdalskofa sem var þarna beint á móti því þetta var þá í gamla Múlakofanum sem við vorum í.
Þeir höfðu farið um kvöldið áður í Geitdal en Pétur Jónsson var þá gangnaforingi á Geitdalsafrétt og ráðlagði hann þeim að þeir skyldu fara gangandi inn eftir seinnipart nætur. Þetta voru allt óharðnaðir unglingar sem síðar urðu dugnaðarmenn en stóðu nú hálf ráðalausir hvað gera skyldi. Þeir voru Eymundur Einarsson frá Flögu, Jón Einarsson frá Mýrum, Sigurbjörn Árnabjörnsson frá Geirólfsstöðum og ég man ekki fyrir víst hver var frá Vaði en þaðan var einn unglingur. Við tókum hestana og sóttum þá norður yfir ána, hituðum þeim kaffi og að því búnu lögðum við af stað heim.
Sýnilegt þótti að ekki yrði úr göngu í þetta sinni, því alltaf fór veðrið versnandi og af því að ég þóttist þarna kunnugastur tók ég að mér að fara á undan. Engum datt í hug að fara á hestana og ferðin gekk sæmilega. Ég lagði ríkt á við félaga mína að passa að ekki slitnaði lestin svo enginn týndist úr hópnum og bað ég þá sem ég treysti best að passa það. Einu sinni lenti einn hestur ofan í jarðfall og kom þá strax maður fram með lestinni til að láta mig vita það og var þá dálítill stans við að ná honum upp en það tókst og var svo haldið áfram. Ég þekkti þarna hverja þúfu og rakti mig þar sem best var að fara en veðrið var með því svartasta sem ég komið út í, bæði stormur og snjókoma og versnaði því meir sem utar kom á dalinn.
Skammt utan við Dalhús (eyðibýli) varð lítill stans til þess að kanna hvort að allir væru með og spurði þá Björn Antoníusson mig hvar við værum. Ég svaraði að við værum skammt innan við Dalhúsgarðinn (gamall varnargarður á milli Hátúnalands og afréttar) og fann ég að hann efaði fullyrðingu mína en rétt fáum mínútum síðar komum við að garðinum og hittum alveg á hliðið. Þá kom Björn fram með mér og kallaði í eyra mér:
„Hvernig fórstu að vita þetta?" Eftir þetta fann ég að hann treysti mér örugglega og varð það mér styrkur. Einar Jónsson og Björn Antoníusson fylgdu mér alltaf fast á eftir og gættu þess jafnframt ásamt fleirum að ekkert slitnaði aftan úr lestinni. Þegar kom út á dalinn skammt innan við Hátún var fjárrétt hlaðin úr grjóti skammt ofan við göturnar og stansaði ég þar og sagðist ætla að gæta að hvort ekki hefðu einhverjar kindur dregið sig að réttinni.
En er ég kom á þann stað sem ég hugði að réttin stæði sá ég enga rétt og sagði við Björn Antoníusson: „Nú er mér víst farið að skeika því hér er engin rétt." Þá segir Björn: „Hvaða dökkna er þetta?" og réttir fram stafinn sem hann hafði í hendinni og rekur hann í réttarvegginn, en þar var engin kind. Þetta er sem dæmi hvað bylurinn var dimmur.
Svo að lítilli stundu liðinni voru allir komnir heilir og óskemmdir heim í Hátún. Nú var ákveðið að Geitdalsgangnamenn færu yfir ána að Geitdal og Múlagangnamenn færu í bæinn að verka af sér snjóinn en hinir fengu hesta til að komast yfir ána. Áin var upp belgd af krapa og mikið snjóskrið í henni og því ill yfirferðar.
Ég man það að ég fór yfir til að kanna hana en ég man ekki hvort nokkur fór með mér en það man ég að Björn Antoníusson sagði eitthvað á þá leið að ef ég treysti mér til hýsa þá alla þá legði hann til að við færum allir heim í Hátún, því þó þeir kæmust yfir ána þá væru þeir ekkert vissir um að finna Geitdalsbæinn. Þessu svaraði ég á þá leið að einhver ráð yrði með að skaffa þeim húsaskjól á Hátúnum og líka treysti ég mér til að fylgja þeim heim í Geitdal og þar fengju þeir betri aðbúð.
Það sagði Björn að ekki kæmi til mála, fyrst mér hefði tekist að bjarga þeim af afréttinum að þeir skildu mig svo einan eftir og hvort sem það voru höfð fleiri orð eða færri þá hélt allur hópurinn heim í Hátún og var búið um þá alla þar á heydýnum á gólfinu, 11 manns aðkomandi því fyrir var stúlka sem var Guðríði minni til skemmtunar á meðan ég var í göngunni.
Ég held að öllum hafi liðið vel eða svo sögðu menn. En eins og sumir sögðu að ég hefði bjargað gangnamönnum er oflof því hér var ekki um neina villu að ræða. Fjallið á aðra hönd en áin á hina og beint í veðrið að sækja og ólíklegt að farið hefði verið framhjá Hátúnum. En hitt var styrkur og flýtti fyrir ferðinni að ég þekkti þarna hverja þúfu og stein og gat rakið mig þar sem best var að fara.
Af veðri þessu urðu furðu litlir skaðar hér í hreppnum eftir veðrinu að dæma. Ég missti enga kind en nokkrar fenntu en komu lifandi úr fönn eftir nokkra daga. Ein ær lá upp í loft fáa faðma frá slóðinni okkar og var hrafninn búinn að drepa hana þegar ég fann hana. Óli í Þingmúla missti nokkrar ær í fönn skammt fyrir utan og ofan Hátún og víðar fórust nokkrar kindur. Mest var tjón hjá Hákoni Finnssyni Arnhólsstöðum.
Hann var nýbúinn að kaupa ær sunnan úr Hornafirði og skildi þær eftir við nátthagann sem var á Nesinu. Hann fór um morguninn og ætlaði að reka þær heim en hrakti með þær undan veðrinu inn á Hallbjarnarstaðanes og fór þangað heim til að fá sér hjálp en þegar þeir komu aftur á þann stað sem Hákon huggði féð vera fundu þeir það aldrei allt og fórst nokkuð af því, mig minnir 20-30 ær. Hafði það fest sig krapa og lent í kíla.
Í Skriðdælu, eftir þá feðga Hrólf Kristbjörnsson og Jón Hrólfsson, kennir margra grasa um dalinn og ábúendur þar í gegnum tíðina. Má þar nefna sveitarlýsingu, örnefni, ábúendatal, veðurfarsyfirlit og sögur af mönnum og málefnum. Hægt er að fylgja þróun verslunar, samgangna og þjónustu við Skriðdælinga fyrr á tímum ásamt breytingum á sveitasamfélaginu. Bókaútgáfan Hólar gefur bókina út.