Við dyrnar: Hugleiðing á aðventu
Eitt af því sem einkennir jólin er það, að víða er barið að dyrum.Við förum í heimsóknir til ættingja vina, knýjum dyra og það verða fagnaðarfundir, gjarnan yfir indælum kvöldverði. Einn af ritningartextum aðventunnar í kirkjunni dregur einmitt upp mynd af dyrum, sem Jesús knýr á og biður um inngöngu. Þetta eru hvorki meira né minna en dyrnar að okkar lífi og hjarta. Þennan texta er að finna í Opinberunarbókinni og þar segir: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér" (Opb. 3.20).
Mig langar til að segja ykkur frá einni af fyrstu jólaminningunum mínum. Þetta var á aðfangadagskvöld 1990 þegar ég var sjö ára gamall en litla systir mín var á öðru ári. Ég hafði semsagt verið einkabarn í sex ár, fyrsta barnabarn í báðum fjölskyldum, og baðað mig í sviðsljósinu hjá elskuríkum ættingjum mínum. Ég elskaði litlu systur mína út af lífinu, og á sama tíma þoldi ég hana ekki - enda var hún á þeim stað í lífi sínu þar sem athyglin beinist óhjákvæmilega býsna mikið að manni. Sjálfur á ég nú tveggja ára gamla dóttur og get vel ímyndað mér aðdáunina og stoltið sem foreldrar mínir hafa fyllst þegar búið var að klæða systur mína í fína, rauða jólakjólinn sinn.
Ekki var það þó svo að það hafi gleymst að sinna stóra bróður þetta aðfangadagskvöld, síður en svo. Ég fékk meira að segja pakka frá sjálfum Dick Tracy (skyldi einhver muna eftir honum?), uppáhaldsteiknimyndapersónunni minni á þessum tíma, og fékk ég að opna þann pakka, yfirkominn af spennu, áður en nokkur önnur gjöf undir jólatrénu var snert. Reyndist pakkinn innihalda nærbrók með mynd af hetjunni og hefði ég trúlega viljað klæðast henni þar og þá, jafnvel utan yfir sparibuxurnar, ef móðir mín hefði leyft það. Það spillti þó ekki fyrir gleðinni.
En ekki fór allt þetta aðfangadagskvöld eftir mínu höfði. Sennilega hef ég þurft að taka meira tillit til litlu systur en ég kærði mig um við gjafaopnun og annað ritúal hins helga kvölds. Er ekki líka bara best þegar maður fær að stjórna öllu sjálfur? Í það minnsta fór svo að ég hljóp grátandi og bálreiður inn í herbergið mitt, ekki einu sinni, heldur tvisvar þetta aðfangadagskvöld, yfirbugaður af óréttlæti heimsins - eða kannski öllu heldur af frekju, sykuráti og spennufalli.
Það eru nú liðin meira en 20 ár síðan ég gleymdi hvað það var, sem mér mislíkaði svona mikið þetta kvöld. En ég man vel eftir að hafa grúft mig ofan í sængina mína og hugsað um hvort enginn ætlaði nú að koma og tala mig til að koma fram, dekstra mig svolítið, eða þá skamma mig. En ég mátti jafna mig í friði og ganga svo lúpulegur fram í stofu þegar ég var tilbúinn og skríða orðalaust upp í hlýtt fangið á mömmu.
Með árunum hefur mér þótt stöðugt vænna um þetta minningarbrot - og þá ekki síður eftir að ég varð sjálfur faðir. Ég hef áttað mig á að það sem þessi minning ber í raun og veru vitni um, er umhyggja og þolinmæði foreldra minna og hvað þau höfðu gott lag á að temja okkur systkinin, sem urðum reyndar fjögur á endanum, með kærleikann að leiðarljósi. Og stundum var einfaldlega betra að bíða og leyfa guttanum sínum að koma sjálfur fram, þegar hann var tilbúinn.
„Sjá, ég stend við dyrnar og kný á," segir Jesús við okkur. "Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans..."
Með þessum orðum sjáum við fyrir okkur, hvernig Jesús knýr dyra og biður um inngöngu inn í líf okkar. Barnið í jötunni, frelsarinn á krossinum, hinn upprisni Drottinn - hann vill fá að taka þátt í daglegu lífi okkar, alla daga. Hann vill halda í höndina á okkur, vísa okkur veginn, hjálpa okkur að læra af mistökunum sem við gerum, veita okkur uppörvun og huggun.
Foreldrar mínir vissu þetta aðfangadagskvöld á sínum tíma, að það væri ekki til neins að elta litla guttann sinn inn í herbergi. Hann myndi koma þegar hann væri sjálfur tilbúinn að skríða upp í hlýja mömmufangið.
Faðmur Drottins er bæði hlýr og breiður. Þar rúmumst við öll á þessum jólum, og líka alla hina dagana. En við verðum hvorki dekstruð né skömmuð til að leita þar skjóls. Við opnum dyrnar sjálf ef við heyrum raust frelsarans, hleypum honum inn í líf okkar og tökum þannig á móti þessari hljóðlátu og djúpstæðu jólagleði, sem aldrei yfirgefur okkur.
Ég hef nú deilt með ykkur einni af mínum vandræðalegri jólaminningum. En mig langar líka til að nefna aðra, sem aðeins er umvafin hlýju og gleði. Það var ekki vani foreldra minna að fara í kirkju á aðfangadagskvöld. Hins vegar var það föst venja þeirra - og er enn - að áður en litið var á jólagjafirnar átti fjölskyldan saman einfalda helgistund, sem alltaf var eins: Pabbi settist við píanóið og við sungum saman Í Betlehem er barn oss fætt. Síðan las hann eða eitthvert okkar systkinanna upp jólaguðspjallið og loks sungum við aftur saman, Heims um ból. Ég man reyndar vel hvað mér fannst sálmarnir langir - við sungum sko öll níu erindin af Í Betlehem er barn oss fætt - og á meðan biðu pakkarnir óhreyfðir! Engu að síður fannst mér þessar stundir ómissandi, fullar af helgi og gleði yfir tilefni jólanna, og minningarnar um þær verða stöðugt dýrmætari. Ég sá vel fyrir mér Jesúbarnið í jötunni, hirðana sem flýttu sér að sjá frelsarann og englana sem skinu svo skært.
„Sjá, ég stend við dyrnar og kný á..."
Jesús Kristur treður sér ekki inn í líf okkar.
Hann ber hljóðlega að dyrum og bíður svars, tilbúinn að taka á móti okkur í hlýjan og rúmgóðan faðminn.
Guð gefi þér og þínum á þann hátt gleðilega jólahátíð.
Höfundur er héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi.