100 ára saga KHB: Hversdagslíf í spéspegli
Í fórum ritara 100 ára sögu Kaupfélags Héraðsbúa kom í ljós samantekt um daglegt líf í Kaupfélagi Héraðsbúa á Egilsstöðum. Þetta afrit er ódagsett en ber með sér að það er skrifað fyrir aldarfjórðungi og flutt á árshátíð starfsmanna félagsins, væntanlega á 75 ára afmæli þess árið 1984. Brugðið er upp mynd af daglegu lífi í fyrirtækjum félagsins á Egilsstöðum í spéspegli sem hér er birt lítið eitt lagfærð og stytt:Kliðurinn berst frá Söluskálanum, tóbakslykt og hávaði af salerninu blandast saman við pylsulyktina og skapar sannkallaða söluskálastemningu.
Fyrir utan er verið að reka niður raflínustaura og hefur það verk staðið yfir um tveggja mánaða skeið. Völundur stendur og horfir á með þeirri ró sem honum einum er gefin. „Þetta gengur allt saman á endanum," segir hann. „Það þýðir ekkert að vera að æsa sig yfir þessu, drengur."
Höggin glymja jafntog þétt og staurarnir mjakast ofan í drulluna, millimetra fyrir millimetra, og einhvern tíma skal hún rísa á þessum stað hin glæsta höll með turnunum ellefu. Og nú er hún risin.
Næst röltir sögumaður yfir bílastæðið, fram hjá jólatrénu, sem nú er reyndar nær því að vera Jónsmessutré og inn í kjörbúðina. Mannsöfnuður bíður við kassann eins og fyrri daginn og það er móður í mönnum. Húsmæður mæðulegar með fulla vagna og vörpulegur maður heldur ræðu um það að víðar séu biðraðir en í Póllandi.
Afgreiðslufólk er ekki sjáanlegt og hefur vísast brugðið sér frá þessa stundina.
Ég hef næstum því stigið yfir barn í bókadeildinni sem situr flötum beinum á gólfinu og er að fletta Rapport. Barnið lætur sér hvergi bregða, flettir yfir á opnuna í blaðinu og kallar: „Sjáðu, pabbi."
Inni í kjötafgreiðslunni er allt í háalofti og þar ægir öllu saman. Fiskur með haus frá Seyðisfirði, siginn fiskur frá Reyðarfirði. Fiskbúðingur og kjötmeti frá Jóni í Kjötmat, hákarl frá Borgarfirði eystra, spíraðar kartöflur frá Jóhanni í Sláturhúsinu. Þessi matvæli lífga upp á stemninguna en Guðný og Solla eru vígalegar á að líta með hnífa í höndunum og betra er að koma ekki mjög nærri þeim því það vantar Lauga til þess að saga skrokk.
Kaffilyktin berst frá lagernum þar sem kaffistofan er og þar er Guðrún Kjerúlf að enda við að hella upp á aðra könnuna og ekkert lát er á kaffidrykkjunni. Umræður standa sem hæst enda er Hrafn endurskoðandi mættur. Samskipti stórveldanna, ástandið í El Salvador, Afganistan, Póllandi, helvítis páfinn, prestakjaftæðið á morgnana, snjósleðaferðir og Óli Jó. Allt er þetta til umræðu eins og verið hefur síðustu árin með litlum tilbrigðum.
Þeir sem taka ekki þátt í þrasi um pólitíkina og heimsmálin spila án afláts þjóf og veiðimann.
Í naglabúðinni er Kormákur að selja einum af menntamönnunum í þorpinu Glenfield riffil. Hann gefur áhaldinu hin bestu meðmæli, segir að enskir lordar ríði gjarnan með slíkar pístólur sér við hlið þegar þeir halda til veiða á grænum engjum Bretaveldis. Með þessar upplýsingar og riffilinn fer maðurinn harðánægður.
Á skrifstofunni er Sigurður Halldórsson búinn að raða í kring um sig „hænsnaskítskortum", en svo kallast skömmtunarkort yfir hænsnafóður. Kvótakerfi og fóðurbætisskattur hefur verið Sigurði til mikillar skemmtunar í starfi hans undanfarin ár.
Í bakaríinu standa yfir umfangsmiklar prófanir á vélbúnaði og strax í dyrunum finnst það á lyktinni að eitthvað merkilegt er að ske. Ofnarnir eru svo kröftugir að brauðin eru brunnin að utan en hrá að innan, og deigið svo „hefað" að það kemur sjálft út um dyrnar.
Jóhann Björnsson situr fyrir innan borðið sitt í sláturhúsinu. Hann er búinn að snúa því við til að „verjast ágangi kvenna", eins og hann sjálfur segir. Hann býður í nefið og skrifar pantanir. Villi Emils snarast inn í afgreiðsluna og segir: „Hvað segja framsóknarmenn í dag?". En úti í kornskálanum er Gunnlaugur Kjerúlf íbygginn að vanda og afgreiðir hænsnafóður eftir hænsnaskítskortum, kúafóður eftir kúaskítskortum, færir til bókar og setur gleraugun upp á ennið á meðan.
Í Trésmiðjunni er að finna Svein Vilhjálmsson á kontórnum en Þórólfur Stefánsson sagar baki brotnu, hinir eru útivinnandi. Á verkstæðinu ber mest á sæluhúsaefni og snjósleðum, ásamt efni í hús starfsmannafélagsins sem er í smíðum með miklum hraða.
Þess má geta að þær Solla og Guðný heita fullu nafni Sólveig Aðalbjörnsdóttir og Guðný Jónsdóttir og Laugi er Gunnlaugur Gunnlaugsson. Þetta fólk vann í kjötafgreiðslunni um árabil. Hrafn endurskoðandi er Hrafn Sveinbjarnarson á Hallormsstað. Kormákur heitir fullu nafni Kormákur Erlendsson og vann um skeið í „naglabúðinni".