Brunavarnir um jól og áramót

eldur brekka nesk des13 khÞað er mikilvægt að fara varlega með eld og rafmagnstæki með tilliti til brunahættu. Og aldrei mikilvægara en á aðventunni þegar meira er um kertaljós og ýmis skrautljós á heimilum og vinnustöðum. Að ekki sé talað um flugelda og blys um áramót og á þrettándanum.

Það er ömurlegt að sjá heimili eða vinnustað þar sem eldur hefur orðið laus og valdið tjóni. Það er ekki bara eldurinn sjálfur sem veldur tjóni heldur eru skemmdir af sóti og reyk heilmiklar og geta verið alvarlegar. Í reyknum eru mörg hættuleg eiturefni og það þarf ekki mikið til valda reykeitrun. Slík eitrun er hættuleg og líkleg til að valda alvarlegum kvillum og óþægindum, bæði strax og jafnvel síðar á ævinni. Allir þurfa að þekkja flóttaleiðir út úr byggingum. Skiptir þar engu máli hvort um er að ræða heimili, skóla, íþróttamannvirki, hótel eða önnur mannvirki sem við dveljum í. Í stærri byggingum eiga þessar leiðir að vera vel merktar með sílogandi ljósi og ávallt greiðfærar.

Kerti og jólaseríur

Gæta þarf þess að kerti séu vel fest og í öruggu umhverfi þar sem þau geta hvorki oltið um koll né teygt loga sína í gluggatjöld eða efni sem getur kviknað í. Látum ekki kerti loga eftirlitslaust. Rafleiðslur á jólaseríum verða að vera heilar og perur af réttri stærð þannig að þær ofhitni ekki og valdi íkveikju.

Eldunartæki og rafmagnið

Algengustu orsakir bruna í heimahúsum eru vegna eldunaráhalda og raftækja. Öll matseld krefst fullrar athygli og viðveru þannig að ekkert fari úrskeiðis. Víkjum aldrei frá potti eða pönnu á heitri hellu því þar gerast hlutirnir á augabragði. Skiljum uppþvottavélina, þvottavélina, þurrkarann eða steikarofninn ekki eftir í gangi á meðan við erum að heiman. Rafbúnaður þessara tækja á það til að bila með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Fjöltengi, snúrur og annar búnaður þarf að vera heill og óskemmdur. Ekki má tengja mörg fjöltengi saman því þannig getur álagið á rafleiðslur hússins orðið of mikið. Við það myndast hiti sem getur valdið íkveikju.

Eldað með gasi

Þegar gas er notað til eldunar skal þess gætt að gaslagnir séu heilar, rétt tengdar og frágengnar. Gasskynjari á að vera til staðar og virka rétt. Mikilvægt er að gaslögnum og öðrum búnaði sé skipt út með reglulegu millibili eftir fyrirmælum framleiðanda. Nauðsynlegt er að vita hvar á að loka fyrir gasið ef eitthvað fer úrskeiðis. Búnaður á eldunartæki á að vera þannig að ef loginn slokknar, þá á gasstreymið til tækisins að stöðvast sjálfkrafa. Öruggast er að gasgeymir sé utandyra. Hann þarf að einangra því þegar gasið verður mjög kalt, minnkar þrýstingur þess og streymið verður mjög lítið.

Eldvarnabúnaðurinn

Reykskynjarar verða að vera rétt staðsettir og endurnýja þarf rafhlöðu í þeim einu sinni á ári. Gott er að byrja aðventuna á því að setja nýjar rafhlöður í þá. Slökkvitæki þarf að hafa vel aðgengileg og staðsett nálægt útgangi (flóttaleið). Á öllum slökkvitækjum er innsigli og þrýstingsmælir sem fylgjast þarf reglulega með. Örin á að vísa á græna svæðið á mælinum. Léttvatnstæki eru að verða algengust á heimilum í dag og eru mjög góð. Dufttæki eru einnig algeng en þau verður að fara með í skoðun á tveggja ára fresti að lágmarki, árlega ef um atvinnurekstur er að ræða. Léttvatnstækin þarf að fara sjaldnar með í skoðun. Svo er sjálfsagt að hafa eldvarnarteppi hangandi uppi í eldhúsinu þannig að fljótlegt sé að grípa til þess. Ef eldur kemur upp í pönnu eða potti er gott að setja lokið á því þannig er komið í veg fyrir að súrefni berist að eldinum og hann slokknar fljótt. Ekki hlaupa með logandi pottinn út í gegn um íbúð.

Eldvarnabúnaður sem ekki er í lagi, ekki rétt staðsettur eða vel sýnilegur er falskt öryggi og kemur ekki að gagni þegar á reynir. Það man enginn eftir slökkvitækinu inni í skáp eða undir fatahrúgu í forstofunni þegar mikið liggur við.

Á heimasíðu Mannvirkjastofnunar má finna bækling um eldvarnir heimilisins sem allir hafa gott af að lesa.

Förum varlega

Förum gætilega með kertin, jólaseríurnar, við matseldina og flugeldana um hátíðarnar. Höldum athyglinni og einbeitingunni og verum á varðbergi gagnvart hættunum sem leynast í meðferð þessara hluta. Gætum sérstaklega að því að börn séu ekki að fikta við eða nota hluti sem þau hafa ekki aldur né þroska til að meðhöndla. Kertin og ljósin eru sérstaklega spennandi fyrir þau. Verum meðvituð um hvar við leggjum frá okkur pappír og aðra eldfima hluti.

Slökkviliðið óskar þér og þínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar