Viljum við hafa eigin rödd?

hrafnkell larusson headshotÞað er einn mælikvarða á heilbrigði lýðræðis í samfélögum, fámennum jafnt sem fjölmennum, hversu frjálsir fjölmiðlar sem þar starfa eru. Það er vel þekkt að þar sem lýðræði stendur veikum fótum (eða er ekki til staðar) eru fjölmiðlar háðir valdhöfum eða öðrum sterkum hagsmunaaðilum sem nota þá til að styrkja og efla eigin valdastöðu. Ágengni valdamikilla aðila gagnvart fjölmiðlum er líka vel þekkt í lýðræðissamfélögum. Slíkt er þó oftast falið eða gerist með lítt áberandi hætti, t.d. með því að þrengt er að fjölmiðlunum fjárhagslega eða með beinum og óbeinum ógnunum. En nóg um það – að sinni.

Upplýsinga- og fréttaveitur svæðisins

Svæðisfjölmiðlar gegna margvíslegu hlutverki. Þeir eru vettvangur fyrir opna lýðræðislega umræðu, skoðanaskipti og gagnrýni. Þeir eru upplýsingaveita um menn, atburði og málefni og líka mikilvægur hlekkur í að efla vitund íbúa svæðisins um sjálfa sig og þekkingu þeirra á því sem um er að vera í öðrum samfélögum á svæðinu. Aðrir sinna þessum hlutverkum sjaldnast betur á dreifbýlum svæðum en blaða- og fréttamenn sem lifa þar og starfa.

Þrátt fyrir netbyltinguna og stóraukið upplýsingaflæði eru hefðbundir fjölmiðlar enn mikilvægir, gildir þá einu hvort um er að ræða ljósvaka-, prent- eða netmiðla. En einmitt vegna ofgnóttar upplýsinga og áherslu á stærri heildir og heims- eða landsfræga einstaklinga verður svæðisbundin miðlun frétta og upplýsinga í svæðismiðlum – eins og t.d. á Austurlandi – ekki síður mikilvæg en áður því atburðir í okkar nærumhverfi (jafnvel þó þeir varði miklu í nærumhverfinu) eiga sjaldan erindi í landsdekkandi fjölmiðla.

Samdráttur og breytt umhverfi

Fyrir áratug síðan var fjölmiðlaumhverfi Austurlands annað en það er nú. Þá starfaði hér Svæðisútvarp, Stöð 2 var með starfsstöð á svæðinu, Austurglugginn hafði þá nýhafið útgáfu (með tvo blaðamenn auk ritstjóra) og landsdekkandi prentmiðlar voru með fasta fréttaritara á Austurlandi sem skiluðu miklu efni til blaðanna – og þá er sjálfsagt ekki allt talið.

En eftir því sem leið að lokum fyrsta áratugar þessarar aldar dró smám saman úr starfsemi fjölmiðla hér á Austurlandi. Sá samdráttur er enn meiri en hefur almennt orðið hjá íslenskum fjölmiðlum á tímabilinu. Stærsti einstaki atburðurinn í þessu samhengi var þegar Svæðisútvarp Austurlands var lagt niður í ársbyrjun 2010.

Við það breyttist landslag í austfirskri fjölmiðlun verulega, upplýsingaflæði innan svæðis dróst stórlega saman og sýnileiki fjórðungsins á landsvísu minnkaði enda starfsstöðin hér eystra að senda 220-240 sjónvarpsfréttir árlega á seinni árum starfseminnar, auk mikils magns útvarpsefnis á landsrásir, bæði frétta og dagskrárefnis.

Í dag er staðan sú að blaða- og fréttamenn á Austurlandi eru einyrkjar með lítil fjárráð sem setur starfi þeirra ákveðnar skorður og gerir fjölmiðlana veikburða. Þeir fjölmiðlar sem nú starfa á Austurlandi eru því berskjaldaðri fyrir ýmsum ógnunum en þeir voru fyrir nokkrum árum og aðstaða þeirra til að sinna gagnrýnni blaðamennsku og upplýsingadreifingu er erfiðari. Ég er þó ekki að kvarta yfir þeim blaða- og fréttamönnum sem hér starfa. Mér finnst þeir standa sig vel miðað við þær aðstæður sem þeir eiga við að etja.

Þátttaka samfélagsins

Því miður erum við sem búum á Austurlandi ekki nógu dugleg að leggja okkar af mörkum við að styrkja svæðisfjölmiðlana. Þá er ég ekki að tala um fjárhagslegan stuðning (þó vafalaust væri full þörf fyrir hann) heldur það að við (austfirskur almenningur) mættum vera ötulli við að koma á framfæri greinum, fréttaskotum og ábendingum. Einkum og sérílagi þarf að efla umræðu um samfélagsmál í prent- og netmiðlum svæðisins.

Miðað við allt það textamagn sem við látum frá okkur dagsdaglega inn á samfélagsmiðla, bæði í formi stöðufærslna og kommenta, þá skortir greinilega á ekki að fólk hér á Austurlandi hafi skoðanir. Margir kunna auk þess að koma laglega fyrir sig orði. En það er mun erfiðara að fá yfirsýn yfir umræðu um svæðismálefni á samfélagsmiðlum en t.d. í netmiðli eins og Austurfrétt. Það hefur meiri áhrifamátt að skrifa grein og senda svæðisfjölmiðlunum varðandi mál sem brenna á okkur (t.d. um skólamál á Héraði eða í Neskaupstað) og fá hana birta á vettvangi sem sérstaklega er helgaður austfirskum málefnum fremur en að tjá sig um þau í stöðufærslum á Facebook eða Twitter.

Hér gætu kjörnir fulltrúar gengið á undan með góðu fordæmi og verið duglegri við að skiptast opinberlega á skoðunum og/eða skýra álitamál sem upp koma innan einstakra sveitarfélaga. Lýðræðið er samræða – ekki bara kosningar.

Hvernig fjölmiðlun viljum við?

Frjálsir fjölmiðlar (þ.m.t. svæðisfjölmiðlar) eiga að starfa með almannahag í huga og fjalla um mál sem varða samfélagið, hvort sem einhverjir kjósa að flokka þau sem neikvæð eða jákvæð. Fjölmiðlar eiga ekki að snúa blinda auganum að málum sem varða almannahag þó umfjöllunin kunni að pirra eða koma illa við einhvern. Fjölmiðlarnir eiga ekki að lúta vilja héraðshöfðinga (kjörinna eða sjálfskipaðra) því þá breytast þeir í marklitlar málpípur ríkjandi valdhafa.

Öflugir og sjálfstæðir svæðisfjölmiðlar styrkja samfélagið. Og hvort sem þeir eru öflugir eða veikir þá endurspegla þeir samfélagið sem þeir spretta úr. Ef við erum óánægð með svæðisfjölmiðlana þá eigum við að gera eitthvað í því að styrkja þá í stað þess að bölva þeim.

Því ef þeir ná ekki að þrífast þá mun umfjöllun um málefni Austurlands færast burt af svæðinu og verða eingöngu í höndum blaða- og fréttamanna á landsdekkandi miðlum. Fólks sem er ekki í daglegri snertingu við mannlífið hér eystra heldur býr við annan sjóndeildarhring og fær Austurlandi mögulega úthlutað sem hverju öðru verkefni sem hefur kannski hvorki haldbæra þekking né áhuga á að sinna.

Værum við sátt við að hafa ekki eigin rödd? Eða viljum við þögn og fásinni?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar