Nýbúinn – Íbúinn: Janúar

asdis helga bjarnadottir jan14Nú kom að því! Hvanneyringurinn, borinn og barnfæddur, ákvað að skipta um umhverfi. Sótti um vinnu og fékk, með aðsetur á Egilsstöðum, og hóf störf nú í byrjun árs. Fljótlega eftir að vilyrði fékkst fyrir starfinu sl. haust fór ég að leita að húsnæði. Ekki var hlaupið að því. Ekkert á leigu frá Íbúðarlánasjóði þó fjölmargar íbúðir væru þá á eignalista þeirra. Svörin frá starfsmanni sjóðsins voru: ,,Ég veit því miður ekki hvenær þær verða tilbúnar þar sem verið er að bíða eftir varahlutum í þær sem gæti tekið einhvern tíma."

Mér var bent á að fylgjast með Dagskránni en lítið sem ekkert kom þar fram um lausar íbúðir. Þá loks kom það, hér verður fólk að þekkja fólk sem þekkir fólk á Egilsstöðum. Þannig rambaði ég á eina. Sé svo þegar ég mæti á svæðið að það eru nokkrar íbúðir með skiltið – til leigu – úti í glugga!

Þegar leið að áramótum var því nauðsynlegasta troðið í litla bílinn sem nú var, eftir 13 ár á heilsársdekkjum, kominn á nagla. Norðurleiðin var vel greið. Í Skagafirðinum voru bændur að bera skít á tún og keyra heim rúllur. Nokkuð sem ég átti ekki von á milli jóla og nýjárs í -15,5°C.

Þegar haldið var á Möðrudalsöræfin var komið myrkur, greiðfært en skafrenningur. Mikið óskaplega voru þau löng. Ég gerði mér enga grein fyrir því hvar ég var stödd. Beið lengi eftir brúnni yfir Jökulsá og skiltinu að Vopnafirði. Helgi syngur Hauk ásamt The Capital Dance Orchestra í tækinu. Það runnu á mig tvær grímur þegar ég mætti bara upphækkuðum jeppum. Í hvað var ég að fara! Enginn sýnilegur á minni leið.

Eftir langa bið sá ég loks skiltið í Jökuldal. Nú fannst mér ég vera hólpin, þekkti nokkuð vel kennileitin eftir það. Nema hvað, það rifjaðist upp að þessi kafli hafði verið skráður ófær hjá Vegagerðinni nokkrum dögum áður. Fannst það mjög skrítið enda hluti af þjóðvegi nr. 1. Viti menn, gjörsamlega glæra yfir öllum veginum og nánast alveg að Fellabæ. Er aldrei sandað eða saltað á þessum kafla? Það var því algjörlega kýrskýrt að naglalaus hefði ég ekki farið þessa leið.

Eftir akstur á ca 40-50 km/klst komst ég loks heilu og höldnu í Egilsstaði. Af skyldurækni lét ég alla vita af þessum áfanga. Þá var lítið annað að gera en að koma sér fyrir í lánsíbúðinni – mikið var ég fegin að leggjast í rúmið, þó Helgi Björns hafi enn hljómað í eyrum mér.

Gamlársdagur. Ég búin að kynna mér Austurgluggann og Dagskrána. Mætti ásamt öðrum á kirkjuhæðina til að njóta útsýnis yfir brennuna. Merkilega mikil þoka svo vart sást í hana. Eitthvað reyndist erfiðleikum bundið að kveikja upp í henni en tókst að lokum. Mannmergð og ekki síður magn bíla langt eftir aðalveginum. Rétt áður en Björgunarsveitin hóf flugeldasýninguna hvarf þokan, sem hendi væri veifað. Þvílíkt dásemd að standa þarna á hæðinni með útsýni yfir brennuna, Fellabæ og fjöllin í kring, horfa á litadýrðina frá flugeldum sem spegluðust svo fagurlega á snævaþakinni jörð.

Um miðnætti hélt ég aftur út til að sjá hvort Egilsstaðabúar væru duglegir að skjóta upp. Kamínulyktin sem lág yfir áður breyttist snögglega í eitthvað annað. Hávær skothríð, upplýstur og marglitaður himinn. Fjölmargir á ferli og köstuðu kveðju hver á annan. Ef einhver samkoma hefur verið auglýst um áramótin fór hún algjörlega fram hjá mér. Þótti það nokkuð skrítið því þaðan sem ég kem úr ca 400 manna samfélagi er alltaf áramótagleði í samkomuhúsi staðarins. Allir aldurshópar mæta, taka með góðgæti á borðið og góða tónlist til að dansa eftir ef ekki er heimaband að spila.

Nýársdagur átti að vera með hefðbundnu sniði. Dorma frameftir. Planta sér í sófann um kl. 13:00 og hlusta á forsetann, halda svo í góðan göngutúr. Vestlendingurinn klæddi sig vel og hélt af stað. Eftir 20 metra í fljúgandi hálku og rigningu, þar sem hreyfingarnar minntu frekar á belju á svelli uppgötvaði ég eitt. Ég var greinilega utanbæjarmanneskja! Allir aðrir nánast skokkuðu fram hjá mér á sínum gormum, broddum eða hvað þetta heitir sem sett er undir skóna í hálku.

Ákvað að snúa við og láta lítið fyrir mér fara, njóta þess bara að setjast upp í sófa með bók og hlusta á Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar. Finnst þó stórmerkilegt að á gamlársdag og nýársdag kastaði fólk á mig kveðju, jafnvel þó viðkomandi gengi á gangstétt hinu megin vegar en eftir að vinna og skólar byrjuðu er undantekning að fólk geri það. Hvað veldur þessari breytingu hjá íbúum Fljótsdalshéraðs?

Hætti að velta mér upp úr því og fer í Íslensku alpana til að kaupa mér brodda, kannski næ ég þá að falla betur inn í hópinn!

Höfundur er búfjáreftirlitsmaður á Austurlandi og nýbúi á Egilsstöðum

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.