Af varðhundum, smiðum og málpípugerð

hrafnkell larusson headshotEitt mikilvægasta hlutverk frjálsra fjölmiðla er aðhaldshlutverk gagnvart ráðandi aðilum í samfélaginu, þeim sem fara með völd hvort sem þeir eru til þess kjörnir eða hafa öðlast valdastöðu sína með öðrum hætti. Þeim sem með orðum sínum og gjörðum hafa meiri áhrif á líf annarra en hinn almenni borgari.

Þetta er stundum kallað „varðhundshlutverk" fjölmiðla. En til þess telst einnig að sinna rannsóknarblaðamennsku, láta almannahag vera ofar einkahagsmunum (t.d. í umfjöllun um afbrot og glæpi) og hika ekki við að segja frá málum, jafnvel þó það kunni að vera óþægilegt og sársaukafullt.

Oft er það svo að þeir sem mestu ráða eru hörundsárastir allra gagnvart fjölmiðlum og reyna stundum að gera þá sér undirgefna. Þeir skilja ekki (eða þykjast ekki skilja) mikilvægi þess fyrir almenning að fjölmiðlar fái að starfa óáreittir. Það skiptir nefnilega ekki aðeins máli hvernig og um hvað er fjallað, heldur líka um hvað er ekki fjallað.

Annað veigamikið hlutverk fjölmiðla er það sem kallað er „samfélagssmiður". Í því felst að fjölmiðillinn sé spegill samfélagsins og gefi því sjálfsmynd, sé lýðræðislegur vettvangur fyrir umræðu, móti sameiginleg menningarleg og félagsleg viðmið og sé almennur og óháður fréttavettvangur.

Flestir hefðbundnir fjölmiðlar reyni að sinna báðum hlutverkunum, þó oft sé áherslumunur. Svæðisbundir fjölmiðlar eru líklegri til að leggja meiri áherslu á „samfélagssmiðinn" en „varðhundinn" og tel ég óhætt að segja að það eigi við austfirska fjölmiðla samtímans. Það er a.m.k. fráleitt að saka þá um óþarfa hörku eða óbilgirni.

Dæmi um ágengni og yfirgang

Einn af föstum liðum í jólablaði Austurgluggans eru ávörp forsvarsmanna sveitarfélaga. Að venju nýttu flestir þau til að ræða málefni síns sveitarfélags á uppbyggilegan hátt og óska sveitungum sínum og öðrum árs og friðar.

Frá þessu var þó undantekning. Í sínu ávarpi farast Birni Ingimarssyni bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs svo orð:
„Ég hef oft furðað mig á því hve þeir sem mest annast umfjöllun fjölmiðla hér virðast eiga erfitt með að sjá það jákvæða sem er að eiga sér stað en dragast þess í stað, líkt og mý að mykjuskán, að málum með neikvæðu yfirbragði."

Hér sendir bæjarstjórinn fjölmiðlum á svæðinu tóninn. Sú leið sem hann velur til þess er bæði ósmekkleg og hrokafull. Hann líkir fjölmiðlamönnum svæðisins við flugur á skít en hefur ekki heiðarleika til að bera til að tilgreina hverjir hafi brugðist, hvenær eða hvernig. Allir og enginn fá því sneiðina. Raunar er óvíst hvort Björn á við svæðismiðla á Austurlandi eða íslenska fjölmiðla almennt. En þar sem hann talar um fjölmiðla „hér" og vettvangurinn er Austurglugginn er þó vert að draga þá ályktun að hann eigi við svæðismiðlana.

Orðsendingar eins og þessi eru vafasöm pólitík. Kröfur ráðamanna um meiri jákvæðni fjölmiðla reynist jafnan, þegar betur er að gáð, snúast um að fjölmiðlarnir varpi björtu ljósi á það sem kemur sér vel fyrir viðkomandi og auki vinsældir þeirra og trúverðugleika.

En Björn fylgir áðurgreindum orðum sínum eftir og tíundar fyrir lesendum Austurgluggans (þ.m.t. austfirskum fjölmiðlamönnum) um hvaða málefni fjölmiðarnir eigi að fjalla. Hann tiltekur tvö dæmi. Annað er uppbygging hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum og hitt atriðið sem Björn nefnir (og kallar eftir stuðningi fjölmiðla við) er samstarf Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar við væntanlega uppbyggingu mannvirkja og þjónustu vegna olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Bæði þessi verkefni hafa fengið töluverða umfjöllun í austfirskum fjölmiðlum, sem gerir upphlaup Björn enn sérkennilegra. En framsetning hans á síðarnefnda verkefninu vekur sérstaka athygli. Það er fjarri því óumdeilt, ekki einu sinni innan Austurlands, enda hefur Vopnafjarðarhreppur (í samvinnu við Langanesbyggð) einnig sett stefnuna á að ná þessari þjónustu til sín (ef af olíuleit verður) og voru þau sveitarfélög raunar búin að hefja þá vinnu á undan Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð.

Það er ekki svo að sveitarfélög og aðrir stærri hagsmunaðilar hafi ekki möguleika á að koma upplýsingum á framfæri. Þessir aðilar ráða yfir heimasíðum sem þeir hafa fullt vald yfir og geta þar komið upplýsingum á framfæri. Slíkar heimasíður eru oft uppspretta frétta svæðisfjölmiðla. En þarna liggur ákveðinn munur. Starfandi blaðamenn eiga að meta hvað af því sem þar birtist gefur tilefni til umfjöllunar af þeirra hálfu og hvernig sú umfjöllun sé. Það er meginþáttur sjálfstæðis þeirra.

Það er því dæmi um ásælni og yfirgang að reyna að gera starfandi fjölmiðla að málpípum fyrir sjálfan sig og ber að taka það alvarlega ekki síst þegar framundan eru sveitarstjórnarkosningar og vænta má að þeir sem nú stýra sveitarfélögum vilji flestir halda því áfram.

Lýðræði er samræða og skoðanaskipti

En svo ég hverfi frá einstökum dæmum og ræði almennt um samspil fjölmiðla og lýðræðis þá má staldra við tvennt. Hvers vegna er almenn umræða um samfélagsleg mál ekki öflugri á Austurlandi? Og hvers vegna er það hagur samfélaga að svæðisfjölmiðlar séu óháðir og öflugir?

Fjölmiðlarnir eru til staðar en eru lítið notaðir í þessu skyni. Sveitarfélögin starfa í þágu íbúanna og þeir eiga heimtingu á að vera upplýstir um álitamál sem varða þá – mál sem mögulega snerta marga, t.d. skólamál, tómstundamál eða framkvæmdir. Skilvirkasta leiðin til þess er í svæðisfjölmiðlum – á opnum lýðræðislegum vettvangi.

Þarna kemur líka til kasta minnihluta í hreppsnefndum og bæjarstjórnum. Þeim ber að veita stjórnvöldum aðhald, krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðunum, en ekki halda sig til hlés þögull og undirgefin. Stundum kunna menn sér ekki hóf án þess að meina illa, t.d. ráðast í breytingar meir af kappi en forsjá eða hlúa meir að eigin hugðarefnum en eðlilegt er.

Það liggur mikil ábyrgð hjá minnihluta við að skapa umræðu, láta hana ná til íbúanna og knýja þannig á um faglegri og betri vinnubrögð. Sá minnihluti sem hverfur næsta hljóðalaust undir yfirborð jarðar að loknum kosningum hefur brugðist hlutverki sínu og íbúum síns sveitarfélags.

Svæðisbundin fjölmiðlun starfar í miklu návígi við nærsamfélagið sem skapar þeim áhugaverð tækifæri og getur blómleg fjölmiðlun, sem sinnir upplýsingahlutverki sínu með fullnægjandi hætti, aukið samfélagssamheldni. Niðurstöður könnunar sem Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, gerði (og birtust árið 2011) benda til ákveðins samhengis milli öflugrar svæðisfjölmiðlunar, lýðræðislegrar þátttöku og sterkra tengsla við samfélagið.

En ótryggur rekstur stendur mörgum svæðismiðlum fyrir þrifum. Liður í að efla fjölmiðlana væri ef sveitarfélög kæmu sér upp almennri fjölmiðlastefnu sem væri til þess fallin að auðvelda sjálfstæðri og óháðri fjölmiðlun að sinna hlutverki sínu.

Fjölmiðlar gera mistök og verðskulda stundum gagnrýni. Forsvarsmenn sveitarfélaga mega vitanlega, eins og aðrir, gagnrýna fjölmiðla með rökstuddum hætti. En þeir verða stöðu sinnar vegna að haga orðum sínum þannig að ekki felist í þeim aðför að sjálfstæði fjölmiðlanna eða tilburðir til þöggunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar